Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Héðinsfjarðarvofa

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Héðinsfjarðarvofan

Bær heitir á Hvanndölum milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar í Vöðluþingi. Geirmundur hét þar búandi; átti hann dóttur þá Freydís hét er sagður er svarri mikill. Hennar fékk maður sá frá Ámá í Héðinsfirði er Gunnar er nefndur, og fóru að búa á Möðruvöllum þar í firðinum.

Geirmundur á Hvanndölum var sjósóknari mikill og heimti jafnan dótturmann sinn til róðra með sér, en Freydís bannaði honum róðrana og unni honum mjög. Þó var það oft að hann réri með Geirmundi. Var það þá eitt sinn að hún bannaði honum harðlegar að fara en nokkru sinni áður, en fara lézt hann ei að síður. Varð þeim þá að orðum; er sagt hún teldi hann þá ei heilan aftur koma og verst mundi hún sjálf af hljóta – og í þeim róðri drukknuðu þeir Geirmundur og Gunnar. Er sagt að Gunnar vitjaði rekkju Freydísar nótt ena næstu og upp frá því nálega hverja nótt, en öngum varð mein að; allvel telja menn að Freydísi gætist að því og undi afar lengi við drauma þá meðan hún lifði og bjó á Möðruvöllum, – en fyrir nokkru hafði Gunnar lagt af komur sínar er hún andaðist. – Eftir það er sagt að hún lá ei kyrr og svo var mikill reimleikur hennar að hún eyddi með öllu Hvanndali og fóru þeir í eyði og svo Möðruvellir. Var það afar lengi að menn sáu Dísu skrölta þar í skálatóftum. Þó var það að lyktum að mælt er hún væri þar niðursett af fjölkynngismanni nokkrum er til var fenginn af Héðinsfirðingum því enginn fénaður mætti koma í Möðruvalla landeign nema hann væri meiddur eða drepinn með öllu, en þó sagt að óhult væri hverjum giftum manni að koma að Möðruvöllum og þar í landeign, en ókvonguðum ekki því þeim eirði hún að öngu. En ei greina sagnir þessar hver helzt eður hvaðan sá maður var er kom Dísu fyrir; eru þetta sagnir Héðinsfirðinga og Fljótamanna, mann frá manni.

Það var nú löngu síðar að sá maður er Gísli hét tók Möðruvelli í eyði og er hann byggði þar baðstofu og gróf til undirstöðu var það fyrir öðru gaflhlaðinu að hann kom ofan á hellu mikla, fékk hann losað hana. Voru undir henni sem hlóðir úr grjóti hlaðnar sem venja er til; hann fann í hlóðunum rúnablöð nokkur með ýmislegum myndum; tók hann þau og lét í kistu sína. Gísli átti móðir gamla og brá henni svo við að að henni tók að sækja á nóttum; kom svo að hún ærðist og dó. Var þá Gísla ráðlagt að brenna blöðin og fór hann því fram, en þó sótti hann jafnan illa að síðan.

Eftir það fór Gísli byggðum að Molastöðum í Stíflu, fram af Austurfljótum. Var það þá einn sunnudag að hann reið ofan að Holtskirkju. Var margt fólk í kirkju og þar mjög heitt, og bar svo til að konur margar féllu í ómegi og bornar voru þær úr kirkjunni. Það varð og enn að griðkonur þrjár frá Hraunum í Fljótum duttu í dá á heimleiðinni, en þar bjó þá Einar Guðmundsson umboðsmaður Reynistaðarklausturjarða. Guðrún Pétursdóttir var kona hans –– voru þeirra synir Baldvin, Bessi og Guðmundur. – Síðan er fólk kom heim frá Holtskirkju að Hraunum nóttina eftir var það að vinnukona þar ein leið þar þrjátíu sinnum í öngvit, önnur fimmtán sinnum og en þriðja nokkrum sinnum í dá. Fleiri urðu þar varir aðsvifa. Aðra nótt tókust enn öngvitin; var þá að heyra því líkast sem húð væri dregin um bæinn. Hlupu þeir þá út Guðmundur son Einars umboðsmanns og Guðmundur Sveinsson húskarl, báðir allröskvir menn og einarðir er frá þessu hafa sagt. Sáu þeir þá flygsu eina í mannslíki hlaupa af bænum og fram til Fljóta; kváðu þeir hana með rauðmórauða skotthúfu. Létti nokkuð við það öngvitunum. Aldrei fengu menn þau um daga, en oft á nóttum.

Þó var það einn dag þá karlar voru á sjó í legum að konur tóku mjög að líða í öngvitin. Það kvöld kom Gísli á Molastöðum. Guðrún kona Einars, góðsöm og skapvær, tók þá að víta Gísla harðlega um fylgju hans, og kom svo að hann grét og kvaðst ei geta að gjört. Um nóttina héldust við öngvitin; að morgni tók Guðrún sér vönd og hýddi hvervetna innan um bæinn, fór síðan á bæ upp og hýddi við glugga alla og hét því að svo skyldi að farið kvöld og morgna meðan aðsókn þessi varaði. Og það sagði Guðmundur Sveinsson að af tæki reimleika þennan við atferli þetta Guðrúnar á Hraunum – þó annarstaðar yrði þess enn vart í Fljótum.