Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hörghóls-Móri (2)

Úr Wikiheimild

Maður er nefndur Jón og var Símonarson. Hann bjó að Hörghóli í Vesturhópi. Son átti hann er Kristján hét og var hann orðinn fulltíða maður er þessi saga gjörðist.

Eitt sumar hélt Jón bóndi kaupamann vestan undan Jökli er Ívar hét og galt hann honum kaup um haustið, en kaupamanni þókti kaupið lítið og illa af hendi leyst; fékkst þó ekki um. Veturinn eftir réri Kristján sonur bónda til fiskjar vestur undir Jökli og var hann til heimilis á sama bæ og Ívar kaupamaður. Einu sinni um veturinn hvurfu Kristjáni vettlingar og fundust eigi hversu sem leitað var. Kristján bar á Ívar að hann mundi valda hvarfi vettlinganna og laust hann allmikinn kinnhest. Ívar brá sér lítið við, en segir: „Illt er ef eg launa hvorki kinnhestinn eða kaupið.“

Um vorið fór Kristján heim úr verinu og sat hann heima hjá föður sínum hinn næsta vetur. Þann vetur öndverðan fórust mörg skip undir Jökli og urðu mannskaðar miklir. Þá var það einu sinni að Ívar gengur með sjó. Hann finnur dauðan mann sjórekinn í fjörunni og heggur af honum annan handlegginn. Því næst vekur hann upp hinn dauða og skipar honum að fara norður að Hörghóli. „Hvað á ég þar að vinna?“ segir afturgangan. „Drepa Kristján bóndason og láta engum verða vært á bænum,“ segir Ívar. Síðan hverfur draugur. Kemur hann um kvöldið norður að Hörghóli er ljós voru kveikt. Kristján sat á rúmi gegnt baðstofudyrum og borðaði úr aski. Fólkið í baðstofunni heyrir að gengið er upp á þekjuna úti. Verður það þá allt jafnsnemma að Kristján hendir frá sér askinum og fellur fram á gólfið, en ljós öll slokkna í baðstofunni. Fólkið reynir að kveikja aftur með eldfærum á vaxkerti og getur það. Slokknar nú ekki ljósið. Sér fólkið þá að mórauður strákur grúfir yfir Kristjáni þar sem hann liggur á gólfinu og hefir hann ekki nema annan handlegginn. Hann rekur upp glyrnurnar heldur ófrýnilega er hann sér ljósið og hrekkur hann nú undan er fólkið kemur að. Kristján sprettur þá á fætur og er hinn óðasti. Fólkið reynir að halda honum, en getur ekki. Kerling ein var þar á bænum er Vigdís hét, og gat hún stöðvað hann. Kristján segir nú frá viðskiptum þeirra Ívars hinn fyrra vetur og muni hann hafa sent sér sendingu þessa.

Á Böðvarshólum, næsta bæ við Hörghól, bjó í þenna tíma bóndi einn er kallaður var margfróður eins og margir voru á þeim dögum. Kristjáni bóndasyni var komið til hans og skyldi hann gæta hans fyrir draugnum. Fékk draugurinn ekki færi á honum meðan hann var hjá bónda. En nú tók draugurinn að gjöra hinar mestu óspektir á Hörghóli, drepa fé og spilla mat. Gekk hann ljósum logum á bænum og gjörðist svo illur að fólk allt flúði burtu nema Vigdís kerling; kvaðst hún eigi nenna að flýja undan ryki þessu enda gjörði draugurinn henni ekki mein. Gætti hún kúnna og sakaði þær ekki, en féð var hirt af öðrum bæjum og lagðist draugurinn á það. Hélt þessu fram til þess er dag tók að lengja og nótt að birta. Rénaði þá fjárdrápið.

Nú var leitað til prestsins að Breiðabólstað, hvernig með skyldi fara vandræði þessi. Prestur réði til að fólkið færi heim um páskana, kvaðst hann þá og sjálfur mundi koma þangað og lesa húslestur og vita hversu skipaðist. Á annan í páskum fór fólkið heim. Kemur nú og prestur og bóndinn frá Böðvarshólum með honum. Tekur prestur til að lesa, en er hann endar guðspjallið ríður draugur svo óþyrmilega húsum að brakar í hverju tré. Hættir prestur þá lestri og gengur hann og bóndinn frá Böðvarshólum út. Þeir sjá hvar draugur fer; vill hann ekki verða á vegi þeirra og hrekkur undan. Þeir elta hann og upp fyrir ás þann er þar verður fyrir ofan bæinn og kallaður er Kjölur. Þar ná þeir draugnum og fengust við hann um stund. Ekki gátu þeir sett hann niður, en minna bar á honum eftir það og gjörði hann ekki mein, svo að fólk gat haldizt við á bænum.

Fór nú Kristján bóndason heim og lifði lengi síðan, giftist og bjó á Hörghóli eftir föður sinn. Aldrei mátti hann vera einn, því allajafna sókti draugurinn að honum. Einu sinni var hann einn á ferð og fannst hann þá dauður á Vesturhópsvatni sem er skammt frá Hörghóli. Eignuðu menn það völdum draugsins. – Ekki hefir draugur þessi gjört neinum mein síðan, en oft hafa menn þókzt sjá hann og oft hefir fólk frá Hörghóli þókt sækja illa að. Hefir draugurinn jafnan verið kallaður Hörghóls-Móri.