Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hörgslands-Móri

Úr Wikiheimild

Draugur sá er austur á Síðu í Skaftafellssýslu sem kallaður er Hörgslands-Móri eða Bergs-Móri. Hvorki er það af því að hann væri upphaflega sendur að Hörgslandi né séra Bergi sem hann er nú kenndur við, heldur er hann svo kenndur af því hann þykir fylgja Bergsætt, en séra Bergur var síðast á Hörgslandi, en upptök draugsins er lengra að rekja og eru því nokkuð óljós.

Svo er sagt að prestur sá var í Arnarbæli (1676-89) er Oddur hét og var Árnason; kona hans var Katrín dóttir séra Jóns Daðasonar er þar var næstur fyrir hann. Þau Oddur og Katrín áttu að minnsta kosti tvö börn, pilt og stúlku sem Ingibjörg hét. Þenna son misstu þau ungan; prestur hafði riðið eitthvað burt á ísum um vetur, en pilturinn var elskur mjög að föður sínum og hljóp á burt eftir honum og í vök á ísnum og drukknaði þar. Eftir það „nam séra Oddur þar ekki yndi með öðru fleira sem honum þótti þar óskemmtilegt“, segir Jón prófastur Halldórsson, en það er bæði sögn og getur að hið „óskemmtilega“ sem presti þótti í Arnarbæli hafi verið það að kona hans hafði áður verið lofuð manni en brugðið við hann eiginorði. fyrir því hafi henni verið send sending frá manni þeim sem hún sveik. En það var hundur einn og kallaður Móri sem átti að ásækja hana og niðja hennar í níunda lið. Eftir það fékk séra Oddur veitingu fyrir Kálfatjörn og var þar til dauðadags 1705. En Ingibjörg dóttir hans giftist Jóni sýslumanni Ísleifssyni í Skaftafellssýslu (1721-26), var hann ribbaldi mikill. Þeirra dóttir var Katrín gift séra Jóni Bergssyni eldra á Kálfafelli á Síðu prófasti í vesturparti Skaftafellssýslu 1754-73 og hefur því verið trúað að Móri hafi orðið honum að bana; enda er það í frásögur fært að séra Jón hafi dáið snögglega út á Eyrarbakka.

Bergur hét einkasonur þeirra Jóns prófasts og Katrínar yngri er síðast var prestur að Kirkjubæjarklaustri, en bjó á Prestbakka og Fossi, en seinast var hann á Hörgslandi og dó þar. Hann átti margar dætur og fylgdi Móri þeim öllum og fylgir enn, að því sem orð leikur á; er hann nú kominn til þeirra í fimmta lið og hefur hann fylgt þessum ættlegg frá Katrínu langalangömrnu þeirra systra þó ekki kunni menn sögur af hreystiverkum hans meðan hann fylgdi hinum eldri af ættinni. Það var sögn manna að í hvert sinn áður en þeim séra Bergi og konu hans varð sundurorða hafi orðið vart við Móra þar á bænum og var það ætlan manna að hann ylli illdeilum þeirra. Eftir fráfall þeirra hjóna fylgir hann nú dætrum þeirra; undireins og hin elzta þeirra dó tók önnur við; varð hún þá hálf-brjáluð. Ein þeirra systra er Þorbjörg gift Jóni sem kallaður er hospítalshaldari; er sagt að hún hafi skammtað Móra. Þóttust menn sjá það til hennar er hún var að skammta á hátíðum að hún laumaði heilum sauðarsíðunum niður með lærinu á sér; sáust þær aldrei framar og er það talið víst að Móri hafi hirt allt saman.

Þó enn vanti mikið á að Móri sé kominn í níunda lið segja Síðumenn það að hann sé orðinn svo aftanrýr að hann sé aftan fyrir að sjá sem gufa ein væri og þykir af því mega til beggja vona bera hvort hann muni endast svo vel sem ætlað var. Engar merkissögur eru af illum aðsóknum undan því fólki, en þó er sagt að Móra hafi orðið stundum vart þar sem einhver hefur komið á eftir af ættinni. Ekki er honum heldur kennt um að hann hafi orðið mönnum að bana nema ef það væri ættingjunum sjálfum, en geðveiki er alsagt hann olli þeim mörgum.