Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Húskarlinn á Hólum
Húskarlinn á Hólum
Það er gömul sögn að á Hólum í Hjaltadal vildi það til að húskarl einn deildi við húsmóður sína, heldri konu – og segja sumir að sjálf væri það biskupsfrúin – og fyrir því að bæði voru skapill harðnaði svo deilan að þau hétust hvert við annað; leið og ei langt áður það hrífa mundi því dauð voru þau á þriðja dægri. Var hún jörðuð í kirkjugólfi, en hann í garðinum og ei gjört orð á að óeðlilega hefði að borizt dauði þeirra, væri það þá lengi síðan að menn sæi þau á kvöldum fljúgast á og eigast illt við, bæði utan kirkju og innan, áður svo kom að afreimdist er langar stundir liðu.
Var það þá eftir ei allfá biskupaskipti að eitt sinn er jarðað var kom upp karlmannsbeinagrind ein úr garðinum; hékk hún saman á sinum öll; þótti það kynjalegt. Var hún látin undir krókbekk í kirkjunni ella inn í stöpulinn. Degi síðar kom Skálholtsbiskup að heimsækja Hólabiskup. Kom þá í ræðu þeirra um kvöldið er þeir sátu að máldrykkju um beinagrind þessa. Lét Skálholtsbiskup sig mjög fýsa að sjá hana og spurði hvert nokkur mundi svo hugaður þar á staðnum að sækja hana í kirkju. Hólabiskup taldi hvern til færan er við væri látinn; því trúði ei Skálholtsbiskup. Kom svo þeir veðjuðu um það níu dölum. Hólabiskup kallaði þá á Gunnu, griðkonu eina, og spyr ef hún vill sækja grindina. Lézt hún þess albúin. Fór hún þegar jarðgöngin til kirkjunnar – sér enn merki jarðhúsgangna þessara neðan úr staðnum – og sótti grindina, kom fyrir biskupa, en er þeir höfðu skoðað hana að vild sinni spyr Skálholtsbiskup hvert hún þyrði aftur út að bera sem áður, fylgdar- og ljóslaust. Hún játti því og kallaði lítið þrek í að koma henni þangað aftur, tók hana á bak sér og hélt í handleggina, fór göngin.
En er kom í þau mið gaf grindin hljóð af sér og mælti: „Meiddú mig ekki!“ Hún svarar: „Ég skal ekki gjöra það, eða kennir þú nokkuð til?“ – og hélt enn áfram. Fannst henni þá grindin þyngjast mjög; sagði þá og grindin: „Slepptú mér ekki!“ Gunna mælti þá: „Haltú þér þá.“ En er hún kom í kirkju lagði hún grindina hóglega niður. Mælti grindin: „Veiztu af hverju ég er svona á mig komin?“ Hún lézt það eigi vita. Sagði hann henni þá sem fyrr segir að hann og konan (biskupsfrúin) hétust og væri jafnástatt fyrir henni, að bein hennar gætu ei rotnað. bað Gunnu kalla til hennar og það með að hann bæði hana fyrirgefningar. Hún gjörði svo og var því svarað að hún fyrirgæfi honum með sama hætti. Fagnaði grindin þessu og kvaðst nú rotna mundi, bað hana sjá til að bein sín væri grafin, sagði henni biskupar hefði veðjað og hún skyldi heimta veðféð og að starfi hennar væri ei ólaunaður; skyldi hún að morgni fara til kirkjugarðs með graftól lítið, mundi hún þar sjá þúfu græna. Skyldi hún skera hana upp og hirða það undir henni væri. Við það fór Gunna til biskupa og fékk veðféð, en þá furðaði hvað lengi hún hefði þá í burtu verið, en hún kvað ei að undra því lítið eitt hefði hún starfað í eldaskála.
En undir þúfunni fann hún dalakút, varð hamingjusöm og fékk ágæta giftingu.