Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hallur á Sandhólum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hallur á Sandhólum

Á Sandhólum í Eyjafirði bjó eitt sinn bóndi sá sem Hallur hét; var það á 18. öld. Hann var hraustmenni mikið og einhugaður. Um þær mundir fóru Eyfirðingar á sumrum ferðir suður á land til skreiðarkaupa og Hallur ekki síður en aðrir, og er þeir fengu ekki næga skreið á Innnesjum fóru þeir suður yfir hraun og keyptu hana þar.

Eitt sumar var það að Hallur deildi illdeilu við kaupanaut sinn þar syðra út af viðskiptum þeirra; var sá haldinn fjölkunnugur. En að skilnaði hézt hann við Hall að senda honum sendingu nokkra næsta vetur. Hallur kveið því ekki mikið og fór heim til sín. Liðu nú tímar fram yfir jól um veturinn að ekki bar til tíðinda.

Það var venja Halls að leggja sig til svefns tímakorn á kvöldvökunum; og eitt kveld vaknar hann snöggliga, litast kringum sig í baðstofunni, stekkur á fætur og ofan og segir um leið að enginn skuli dirfast út að ganga meðan hann komi ekki inn aftur því líf hvers liggi við sem það gjöri. Fer hann nú sem kólfi væri skotið fram úr baðstofunni og eftir göngunum og út og skellir bænum fast aftur eftir sér. Veit nú fólkið ekki meira um hann og situr nú lafhrætt langa stund, því strax og Hallur var út kominn heyrðust dunur nokkrar ekki litlar úti fyrir, en enginn þorði eftir að skyggnast.

Í vökulokin kemur Hallur inn; er hann þá dæstur mjög og máttvana, talar ekkert, en dregst með naumindum í rúmið og breiðir feld á höfuð sér. Morguninn eftir getur hann ekki klæðzt, og litlu bergir hann þann daginn og fannst þá skyrta hans samanbrotin á bita í bæjardyrunum; var hún öll snorkin af svita og blóði. Líka sáust vegsummerki í bæjarhólnum og þúfunum þar fyrir neðan að þar hefði orðið atgangur mikill. Þeyviðri var um nóttina, og hafði grassvörðurinn gengið af allt að klaka og var það um mikið svæði. Blástur hljóp í búk Halls allan og lá hann viku rúmfastur, en rétti síðan við og varð albata.

Sagði hann svo frá að þegar hann hrökk upp af svefninum um kveldið hefði hann séð draug fara niður eftir Vatnahjalla og vitað að hann var sér sendur, en þegar hann hefði komið út á hlaðið þá hefði draugsi komið sunnan að bæjarhólnum og ráðið á sig. Aldrei kvaðst hann í slíka aflraun komið hafa sem að eiga við draug þennan og lengi hefði hann átt nóg með að verjast falli, en þó hefði hann að lokum borið hærri hluta og getað fellt drauginn. Hefði hann þá kennt mikinn ódaun, en draugurinn misst allan mátt sinn og orðið að eldglæringum sem bráðum hurfu. Lá Hallur þar eftir sem draugurinn datt langa stund að hann vissi lítið til sín, en sem hann vitkaðist aftur dró hann sig í bæinn og skildi eftir skyrtu sína á fyrrgreindum stað.

Sumarið eftir fór Hallur suður; hitti hann þá hinn fyrri kaupanaut sinn sem kennir hann og segir: „Ertu kominn, Hallur?“ „Já, fyrir guðs náð,“ kvað Hallur, vék sér að honum skyndilega og rak hnefa sinn á nasir honum svo fast að úr honum hrutu allar framtennurnar og hann lagðist í svima og flaut í blóði sínu. Hafði hann áverka þennan bótalaust af Halli.[1]

  1. Aðrar eyfirzkar sagnir segja að maðurinn sem sendi Halli drauginn hafi verið vestur undir Jökli.