Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hauskúpan

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Einu sinni var tekin gröf í kirkjugarði nokkrum og kom upp mikill gröftur. En eins og vandi er var hann látinn niður aftur með kistunni. Um nóttina eftir dreymdi konu kirkjubóndans að kvenmaður kæmi til hennar; hún kvað:

„Gengið hef ég um garðinn móð,
gleðistundir dvína;
hauskúpuna, heillin góð,
hvergi finn ég mína.“

Síðan lét konan leita og fannst hauskúpa fyrir utan kirkjugarðinn er hundar höfðu borið út úr honum meðan beinin lágu uppi án þess því væri veitt eftirtekt. Konan lét jarða kúpuna og svaf síðan í næði.