Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hesteyrar-Krita

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Maður heitir Jón er enn nú lifir er þessi sögn er rituð; hann er Guðmundsson. Hann bjó fyrir nokkru síðan á Hesteyri í Mjóafirði. Hann átti fyrir fyrri konu konu þá er Kristín hét. Tvö börn áttu þau hjón saman; stúlku að nafni Solveig er síðar varð kona Sigfúsar bónda í Gilsárvallahjáleigu og pilt er ég man ekki nafn á.

Nú varð Kristín veik að þriðja barninu og er það mælt að hún hafi beðið mann sinn þá oft að færa sér ætiþara frá sjó sem henni þókti mjög góður; en með því Jón þókti vera mjög vondur og stirður við konu sína hafði hann svarað henni að hún gæti étið eitthvað annað, og gjörði það því ekki. Einn morgun sem oftar nefnir hún þetta við hann; en hann svarar því öngu, en fer út í fjárhús að hirða fé. Á meðan hafði konan farið og ofan á klappir fyrir neðan tún og eftir ágezkan farið að ná sér þara og seilzt ofan í klappirnar að ná honum með mestu lífi og sáu menn það af rifnum þara sem fannst á klöppunum. En af óvörum hafði hún steypzt í sjóinn. Flaut hún þarna við klappirnar þegar Jón kom út úr fjárhúsi og gekk til bæjar. Sér hann þá hvar hún flýtur, en veit samt ekki í fyrstu hvað þetta er fyrr en hann heyrir að hún hrópar til hans um hjálp, og þekkir hann þá rödd hennar. En hann bregður sér ekki við og færist hún nú óðum frá landi þar til hún seinast kallar og segir: „Jæja, ég skal þá sitja um líf þitt og barnanna “ En hann gaf sig ekki að heldur að því, en fór í bæinn og fór að klæða börnin; en á meðan sökk konan. Unglingsdrengur hafði verið hjá þeim sem sagt var að hefði þókzt heyra og sjá þetta. Ekki urðu menn varir að Jón syrgði mikið atburð þennan. En skömmu á eftir fóru menn að sjá og verða varir við Kristínu afturgengna og áreita Jón ekki hvað sízt. Eina nótt var það að Jón vaknar við það að hann heyrir að skorar í dreng sínum, sem hann hafði mætur á. Segir hann þá að nú muni Kristín að drepa fyrir sér drenginn, stekkur upp og að drengnum, en hann er þá örendur, og sást það þegar að var gáð að blárauður hringur var í kringum hálsinn á líkinu og andlitið allt þrútið og blátt og var því kennt að móðir hans hefði kyrkt hann. Öðru sinni var það, haustið eftir að þetta var, að Jón var staddur á sjó um kvöldtíma í tunglsljósi og tveir menn aðrir innfjarðar og vóru að draga fisk því afli var nægur. Vita þeir þá ei fyrri til en kvenmannsmynd kemur upp úr sjónum allt að mitti þeim megin að skipinu sem Jón var við færi, og grípur í borðstokkinn og um færið hjá Jóni og ætlar að hvolfa. En í því grípur Jón sveðju er lá í skipinu og bregður á loppuna; en þá sleppir hún og segir um leið: „Þú nauzt þess nú, Jón, að fleiri vóru á með þér.“ Í því hvarf hún. Þetta átti líka að hafa verið Kristín.

Einu sinni hafði Jón lagt sig til svefns sem oftar. Heyra menn þá að það fer að skora í honum og fara menn til og ætla að vekja hann, en í því vaknar hann og segir að nú hafi þeir komið sér til hjálpar því nú hafi djöfullinn hún Kristín ætlað að hengja sig. Öðru sinni var það að Jón hafði komið af sjó um kvöld í tunglsljósi með öðrum mönnum. Sjá þeir þá að einhvör stendur í fjörunni. Stekkur Jón þá af skipi fyrstur og hleypur að þeim sem í fjörunni stendur og hverfa þeir sjónum hinna sem fara að setja skipið. En að nokkrum tíma liðnum kemur hann allur rifinn og tættur og segir þeim að Kristín hafi nú ætlað að drepa sig. Líka er sagt að drengur sem hjá Jóni var hefði ætlað að hýsa fé með honum einu sinni eitt kvöld. Þegar hann kom út á túnið sér hann að Jón er að fljúgast á við eitthvað við fjárhúsin, sem honum sýnist í kvenmannslíking. Verður drengur svo hræddur að hann hljóp inn. En nokkru síðar kom Jón inn rifinn og blár, en hafði ekki orð á við hvað hann hefði fengizt; en það þóktust menn vita að það hefði Kristín verið. Og haldið var það að því hefði hann brugðið búi á Hesteyri og farið suður í sveitir að hann hefði ekki treyst sér hennar vegna að halda[st] þar við.

Margt er fleira um þetta sem hér er ei talið, en ætíð þóktust menn verða varir við hana á undan Jóni, bæði með því að menn heyrðu riðið húsum og enda sjá hana áður Jón kom á bæi og stundum eignuðu menn henni að hún hefði drepið skepnu bæði hjá Jóni og öðrum. Það var til dæmis einu sinni að Jón ól kálf og þókti vænt um. Lá hann einu sinni dauður á básnum og var allur blár og sligaður, og sagði Jón þá að fjandinn hún Kristín hefði drepið hann fyrir sér.

Lík Kristínar fannst rekið af sjó eftir langan tíma í Skálanesfjöru í Seyðisfirði og var þá í heilu líki nema rifið á kviðinn og þannig lýstu þeir draugnum er þóktust sjá hann. Orð fór af því að draugur þessi hafi líka átt að fylgja ættingjum Jóns. Þessi sögn hefir verið í almæli í Mjóafirði og kann ég ekki þessa sögu lengri.