Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Heygarðsdraugurinn á Hvítárvöllum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Heygarðsdraugurinn á Hvítárvöllum

Einhvern tíma var vinnumaður á Hvítárvöllum sem hvorki er nefndur sjálfur né hver hafi verið húsbóndi hans. Hann var þar garðmaður og tók til allt heyið og hafði nóg að starfa því þar var þá nautpeningur mikill, bæði kýr og geldneyti. Maður þessi lagði hug á stúlku þar á bænum, en hún vildi ekki eiga hann. Af því varð maðurinn þunglyndur og að lokum ekki mönnum sinnandi. En garðverk stundaði hann þó eigi að síður unz hann fannst hengdur í hálsklútnum sínum í einni heygeilinni. Þóttust menn þá vita að hann hefði fargað sér sjálfur af harmi af því hann fékk ekki stúlkuna sem um það leyti lofaðist öðrum manni.

Kvöldið áður en brúðkaup hennar átti að verða að morgni var veður gott og tunglsljós bjart. Stúlkan átti ýmislegt eftir ógjört og þar með brúðarskó sína. Hún sagði við stúlku nokkra á Hvítárvöllum að hún skyldi koma með sér fram í bæjardyr því hún ætlaði að gera þar skóna fyrst svona væri fagurt og bjart úti, en ekki kominn sá tími að farið væri að kveikja. Stúlkan gjörði svo og voru þær þar um hríð, brúðarefnið við skógerðina og hin stúlkan að dóta sér þangað til hún settist niður hjá brúðarefninu. Þegar stund var liðin fer stúlkuna að syfja og geispar hún mjög. Brúðarefnið segir að hún skuli þá fara inn og hátta fyrst hún sé svona syfjuð, sér sé engin skemmtun að henni hvort sem sé enda muni ekki villa um sig í blíðunni og birtunni þeirri arna. Stúlkan gerir svo, fer innar og leggur sig fyrir, en brúðarefnið situr kyrr sem áður og lýkur við skóna. Þegar hún er búin með þá verður henni litið út; sér hún hvar maður kemur neðan túnið, heldur fasmikill og heilsar henni ekki. Hún yrðir á hann að fyrra bragði og spyr hver hann sé. Maðurinn segir henni það og það með að hann eigi erindi við hana. Hún segir: „Það fór þá betur að ég var ekki háttuð fyrst þú átt erindi við mig, en hvert er nú erindið?“ „Ég ætla að drepa þig.“ segir hann. „Það held ég þú látir ógert.“ segir hún; „og gjörðu nú annaðhvort að þú far til hins neðsta og versta helvítis eða farðu til andskotans norður á heygarð og róðu þar til eilífðar, en af mér hefur þú hvorki mjótt né mikið annað.“ „Og þúsund sinnum heldur norður á heygarð,“ segir draugurinn; brá hann skjótt við og fór þangað og hafa skyggnir menn tíðum séð hann róa þar. Eftir það var stúlkan laus allra mála við hann.

Um þenna draug er það allmerkilegt að hann er einn af þeim fáu sem gjörir gott, en ekki illt. Það er sumsé almæli að þó veðrasamt sé á Hvítárvöllum eins og víða er í þeirri sveit rjúfi þar aldrei hey í garði ef hvorki sé borið á þau grjót né sig, og þakka menn það draugnum sem liggi á heyjunum og verji heygarðinn fyrir öllum heysköðum ef hann má vera einn um hituna. En ef menn láta þar sig á hey og bera grjót á er sagt að það hey rjúfi og hvirflist burt niður að garðsetum. Einu sinni er veður gjörði hvasst voru meðal annara tvö hey í Hvítárvallaheygarði, annað nýuppborið af lausu og léttu útheyi og ótyrft, en annað þétt og sigið hey, tyrft og vel um búið. En allt um það flettist af því heyinu allt torfið og grjótið eins og því væri fleygt, og heyið sjálft þyrlaðist út um allt, en hitt heyið sem var nýuppborið haggaðist ekki hót.[1]


  1. Heyrt hef ég suma Borgfirðinga kalla Skotta eða Hvítárvalla-Skotta draug þann sem liggi þar á heyjunum; en engan karldraug hef ég annan heyrt nefndan því nafni. Sumir segja og að það sé Stormhöttur sem verji þar heyin, sbr. um Hvítárvalla-Skottu.