Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hjónadjöfullinn
Hjónadjöfullinn
Á Geirmundarstöðum í Skagafirði bjuggu einu sinni hjón og fóru hugir þeirra ekki saman. Enda var það mælt að annar maður væri í þingum við konuna og gjörði því allt sitt til að spilla milli hjónanna. Í því skyni magnaði hann fjanda einn í hundslíki mórauðan að lit. Þennan fjanda sendi hann á Geirmundarstaði til að verða hjónadjöfull. Öldruð kona var í dvöl hjá þeim hjónum á Geirmundarstöðum; hún tók eftir því að í hvert sinn áður en hjónin fóru að rífast kom mórauður hundur inn í baðstofuna, fór upp á pallinn og lagði kanann upp á rúmið á milli hjónanna þar sem þau sátu og geispaði svo ólundarlega. Þegar seppi var búinn að þessu var það ævinlega segin saga að hjónin fóru að rífast. Gamla konan talaði þá við hitt vinnufólkið um fyrirrennara þann er hún sæi fyrir rifrildi hjónanna og kom því öllu ásamt um að hún skyldi segja konunni frá því er hún sæi og vita hvort hún gæti ekki með því miðlað málum milli hjónanna; því raunar voru hjónin ástsæl hjá öllum hjúum sínum.
Einu sinni tók hin skyggna kona húsmóður sína tali og leiddi henni fyrir sjónir ókristilegt athæfi þeirra hjóna í rifrildi og annari sambúð. Konan tók ekkert undir það með fyrsta, en hin aldraða kona sagði að hún mundi gjöra sér meira far um að forðast illdeilur við bónda sinn ef hún vissi af hverju rifrildi þeirra risi. Síðan sagði hún henni upp alla sögu og bað hana þess lengstra orða að vægja í öllu til við bónda svo hún skemmti ekki skrattanum lengur með illdeilum sínum. Konan hét henni góðu um það allt sem í sínu valdi stæði. Fór þá svo að samkomulag þeirra hjóna batnaði dag af degi því konan sló ávallt undan bónda sínum og svo fór á endanum að sambúð þeirra varð ástúðleg; enda sást Móri aldrei framar.