Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Horfinn er fagur farfi

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Einu sinni var lík grafið á prestsetri nokkru og tóku vinnumenn prests gröfina. Hjá prestinum var vinnukona ein ung og órög. Hún kom út í kirkjugarð þegar langt var komið að taka gröfina. En í því hún kemur til grafarmanna tóku þeir upp mannsbein eitt; það var lærleggur ákaflega stór. Stúlkan kemur auga á legginn og handleikur hann og segir síðan: „Gaman hefði verið að kyssa þenna í lífinu.“ Að því búnu leggur hún niður legginn og gengur burt. Nú líður dagur að kvöldi til þess að almyrkt er orðið og ljós voru kveikt, þá saknar prestur bókar nokkurrar er hann hafði gleymt úti á altari í kirkjunni um daginn. Hann biður nú stúlku þessa hina sömu að sækja fyrir sig bókina því hún var kunnug að því að hún var með öllu ómyrkfælin. Stúlkan tekur vel undir það, gengur út í kirkjuna, tekur bókina á altarinu og gengur fram eftir kirkjugólfinu. Þegar hún er komin fram að kirkjudyrunum sér hún hvar situr ógurlega stór karlmaður með mikið skegg í krókbekknum að norðanverðu; sá yrðir á hana og kvað vísu þessa:

„Horfinn er fagur farfi,
forvitin, sjáðu litinn,
drengur í [dauða genginn,[1]
drós, skoða [hvarminn ljósa;[2]
hildarplögg voru höggvin
[þá háða ég[3] valþing áður;
kám[4] er á [kampi (v)orum,[5]
kysstu, mær, ef þig lystir.“

Stúlkan lét sér ekki bilt við verða, gengur að honum og kyssti hann. Fór hún svo inn með bókina og bar ekki neitt á neinu.

Önnur sögn er það að stúlkan hafi ekki átt að þora að kyssa manninn er hann skoraði á hana, heldur hafi komið á hana dauðans ofboð og hlaupið út úr kirkjunni, orðið æðisgengin og aldrei komið til sjálfrar sín meðan hún lifði. En öllum ber saman um það að þetta hafi átt að vera lærleggur einhvers stórvaxins fornmanns er kom úr gröfinni er hún sá í krókbekknum og kvað vísuna.


  1. Frá [ hafa aðrir þannig: „dauðans gengi“.
  2. Frá [ hafa aðrir þannig: „farfann ljósa“ og enn aðrir: „hvarma ljósin“.
  3. Frá [ hafa aðrir svo: „háðum vér“.
  4. Aðrir: „kar".
  5. Frá [ hafa aðrir svo: „á Kára vörum“.