Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hryggjarliður á knífsoddi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Hryggjarliður á knífsoddi

Ekkja nokkur bjó búi sínu nyrðra. Var hún vel efnuð og rösk til alls og urðu því ýmsir til að biðja hennar og þar á meðal galdrasnápur þar í nágrenninu, og neitaði hún honum. Ekkjan var skyggn og átti því hægra með að gæta sín. Skömmu seinna var hún að skammta í búri að kvöldi dags og skar blóðmör með knífi. Sá hún þá hvar vofa færðist innar eftir göngunum og kom inn búrdyrnar. Konan stóð með knífinn í hendinni og horfði stöðugt og óhrædd á vofuna. Vofan hikaði við og leitaði lags að komast á hlið við konuna eða aftan að henni því aldrei kemur óhreint framan að óhræddum manni. Ekkjan sá að vofan var alsvört, en hafði hvítan díl. Lagði hún knífinum á þennan blett; varð þá brestur mikill svo konunni varð knífurinn laus. Var líkast því sem honum væri kippt af henni. Sá hún ekkert framar og ekki fann hún kníf sinn. Morguninn eftir fannst knífurinn út á hlaði. Stóð hann þar gegnum mannshryggjarlið og hafði þó öllum hurðum verið læst um kvöldið.