Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Illuga-Skotta

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Illuga-Skotta

Illugi hét bóndi er bjó að Arnarvatni norður við Mývatn, er kallaður var margfróður. Þá bjó maður sá að Gautlöndum er Magnús hét Hallsson. Hann var skáldmæltur og haldinn fjölkunnugur; hann kvað níðvísu um Illuga. Hét hann því þá að hefna þess á Magnúsi.

Það var einn dag að Illugi kom að Gautlöndum þá Magnús stóð að fé sínu, en konur unnu tó í baðstofu. Illugi kom í baðstofuna og hjalaði um hríð við konurnar; þar var svo byggingu háttað að götupallar voru langsetis. Illugi stóð upp við rekkju Magnúsar meðan hann ræddi við konurnar, hafði viðdvöl litla og fór síðan heim. Um kvöldið er Magnús kom heim og gekk að rúmi sínu spurði hann hvert að nokkur kom þar um daginn. Konurnar neituðu því og mundu eigi það að Illugi kom. Magnús lézt eigi því trúa og frétti enn ítarlegar að því; sagði þá mær ein að Illugi á Arnarvatni kom. Það lézt Magnús ætlað hafa, greip hund sinn og kastaði upp í rekkjuna, og drapst hann, en ei sakaði Magnús. Litlu síðar þá Magnús kom í rekkju sína var þar kona ein, að sjá með skuplu; þótti Magnúsi hún allóþekkilig. Vita þóttist hann að kvendraugur sá mundi sendur sér til óheilla af Illuga og að sjá fyrir sér. Tók hann þá ráð að magna draug þenna og senda hann aftur Illuga. Átti hann allerfitt með hana. – Var hún þá kölluð Illuga-Skotta. Er þó sagt að hann bryti handleggi hennar báða að lyktum – því trúað var að hún væri þreifanleg. Er þá talið að allmikið dofnaði draugremmi hennar við það og væri þá fylgisöm Magnúsi og fólki hans áður Galdra-Ari Jónsson, prests greipaglennis Einarssonar, prests galdrameistara, magnaði hana af nýju og sendi Illuga, sonarsyni Illuga á Arnarvatni; er hann talinn Helgason og skáld (árbækur telja Illuga prest verið hafa; má vera hann væri aðstoðarprestur um hríð). Varð hann að verjast ásóknum Skottu; gjörði hún margt illt og drap fénað víða. Hún kvaldi og Illuga stundum; er sagt hann verði sig mest með kveðskap. Kveðið hefur hann Ambalesrímur; hann bjó að Syðri-Neslöndum við Mývatn.

Halldór hét ungur maður, son Jóns bónda Einarssonar í Reykjahlíð við Mývatn. en kona Jóns, móðir Halldórs, var Björg Jónsdóttir prests á Völlum í Svarfaðardal; fleiri voru og börn þeirra. – Halldór Jónsson kom eitt sinn er hann sló í nesi við vatnið til Illuga þar gásir höfðu mjög bitið. Halldór talaði við hann um gásabitið; Illugi kvað:

Hérna á hefur gásin grá
gengið oss til baga.
Hana má fyrir hvinnsku þá
í hæsta rétti klaga.

Það telur Halldór þessi að Helgi faðir hans væri prestur, en ei Illugi þessi skáld Helgason.

Jón Einarsson bjó að Reykjahlíð með Björgu konu sinni er áður er um getið; áttu þau börn mörg, Helgu ena eldri og Helgu yngri er varð kona Jóns prests Þorvarðssonar síðast á Breiðabólstað í Vesturhópi, Sigríði, Rafn, Halldóra tvo og fleiri. Halldór yngri var sá áður getur að fann Illuga, er síðan fór vestur að Borgarseli við Sjávarborg og hefur frá þessu sagt áttræður (1848). Segir hann svo frá að þá væri hann sveinn ei allgamall er hann þreifaði á Skottu. Barst það svo að að í reykjarharðindunum er hann var með foreldrum sínum í Reykjahlíð að sjóða skyldi til jóla aðfangadagsnótt því umferð var mikil um daga af vergangsfólki. Halldór fékk að vaka með móður sinni og Helgu systur sinni um nóttina við soðninguna. Var það þá að þær sendu hann fram í skálahús eftir eldiviðarkögglum með trog, en er Halldór þreifaði eftir þeim í kofanum fann hann að kona sat þar í hnipri. Hann var ómyrkhræðinn, strauk hendi ofan bakið og fannst hún í pilsi og mælti: „Því situr þú þarna, Sigga?“ – ætlaði Sigríði systur sína, fundust deig og köld föt hennar. Honum var öngu gegnt; fór hann með trogið í eldhúsið og segir móður sinni að Sigga sat fram í skálhúsi og gegndi sér öngu. Björg var kölluð ramskyggn; kvað hún Sigríði ei þar mundi vera eina í myrkri, væri annað, tók ljós og gekk fram með þeim Halldóri og Helgu. Sáu þau þá öll að Skotta steðjaði út allgustmikil og skelldi svo fast bæjarhurðinni að brakaði í hverju tré, en Sigríður svaf inn í rúmi.

En það er til dæma talið hversu að Björg var skyggn að eitt sinn er hún var í rekkju hjá bónda sínum kvað hún það fyrir sig bera að bóndi einn, Jón Höskuldsson vinur Jóns manns hennar, glímdi nú við Eyjafjarðará við Eyjafjarðar-Skottu. Jón hélt það markleysu og ræddu þó um að gaman væri að frétta hvert nokkuð sérlegt við bæri um Jón Höskuldsson. En það spurðist síðan að hin sömu dægur drukknaði Jón sá í Eyjafjarðará og var kallað af sumum að Eyjafjarðar-Skotta villti hann út á ána.

Ásmundur hét húskarl einn á Grásíðu í Kelduhverfi er kallað var að færi með kukl. Var það eina nótt er menn voru til rekkna gengnir að Illuga-Skotta snaraði sér upp fyrir Ásmund og sagði: „Nú er [ég] lúin Ásmundur.“ Hann spyr hví svo var. „Að fylgja austur yfir Hálsana og norður yfir Skörðin,“ kvað hún, því að jafnan sýndist hún á ferð með þeim frændum Illuga á Arnarvatni.

Illugi skáld Helgason á Neslöndum kom eitt sinn á bæ Galdra-Ara Jónssonar, prests greipaglennis; var óþokki á með þeim Ara. Ari sat í eldaskála og vissi Illugi það; kom hann á eldhúsglugginn og kvað níðvísu um Ara. Ei er þess getið að þeir ættust þar fleira við, en eftir það magnaði Ari Skottu og sótti hún síðan mjög að Illuga og kvaldi hann jafnan um nætur svo lítt fékk hann sofið eður ekki.

Ingibjörg hét kona Illuga dóttir Gríms bónda er lengi bjó að Ásmundarstöðum á Sléttu, Jónssonar höfuðsmanns. Allmikill fyrir sér var Grímur faðir hennar. Jón hét bróðir Ingibjargar Grímsson, en miklu eldri; var hann á vist með Illuga og systur sinni og gat lengi varið Illuga fyrir Skottu meðan hann gjörðist ei ellihrumur, því sagt er hann beitti mest afli og hugdirfð því bæði var hann mikill og sterkur.

Halldór hinn eldri Jónsson frá Reykjahlíð bjó þá að Vogum og var það oft að hann vakti hjá Illuga á nóttum þá mest var aðsóknin. Var það þá eina nótt að Illugi vaknaði með andfælum miklum. Þá hljóp Halldór út og ætlaði Skottu á glugg yfir Illuga; sá hann þá að Skotta glímdi við strák einn er dáið hafði á Neslöndum um haustið, og Illugi [hafði] oft vítt hann um strákskap sinn. Halldór var ófælinn og kvað vísu um Skottu og skipaði henni brott að dragast; hvarf hún þá þegar og kom sömu nótt í Voga, fór í baðstofu og æpti allhátt svo heimamenn heyrðu, að því þeir sögðu, að Halldór væri allkjaftfortur; tók og til að kitla þar stúlku eina svo hún sýktist af, en aftur batnaði henni er Halldór kom heim. Hún drap og beztu kú Halldórs og ær nokkrar, og lengi er sagt hún væri við lýði.