Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Inntak út söguþætti af Jóni Upplandakóngi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Inntak úr söguþætti af Jóni Upplandakóngi

Þann tíma er Ólafur kóngur Haraldsson réð fyrir Noregi var sá kóngur á Upplöndum er Jón hét, ungur að aldri, manna fríðastur og bezt að sér um alla hluti; er helzt tekið til hve fagurt hár hans var, að þá hann stóð í lyftingu á skipi sínu og sól skein var það sem á gull sæi.

Ei var Jón kóngur kvongaður, þótti hann helzt skorta það ráð er honum væri jafnkosta. Mær ein ættstór og ágæt að hvívetna var þar í landi; gjörir Jón kóngur ferð sína þangað er hún átti heima og biður hennar sér til eiginkonu, er honum vel svarað og kveðið á nær hann skal aftur koma og vitja þeirra einkamála. Fer hann síðan heimleiðis. Litlu síðar tekur festarmey hans sótt mikla og stríða svo að hún deyr; verður það hið mesta sorgarefni frændum hennar og forsjármönnum, og gjöra þeir útför hennar sem hæfði. Þar á bæ var kirkja og garður um, grófu þeir líkið í garðinum og gengu frá með sút og trega; kemur engi fregn af þessu til Jóns kóngs áður hann býst heiman og ætlar að sækja brúðkaup sitt; fer síðan af stað og léttir ei fyrr en hann kemur nærri bænum þar hann átti von festarkonu sinnar, var þá mjög náttað.

Gengur hann nú frá mönnum sínum til kirkjugarðsins og er hann kemur inn sér hann þar leiði nýgjört, en grunar ei hver undir liggur, reikar síðan aftur utar að hliðinu; hann hafði sverð sitt og vopn öll önnur; sér hann þá hvar maður ríður að hliðinu mikill og hávaxinn gyrður sverði með hauk á hendi og rann hundur jafnframt; og sem hann sér að maður er fyrir innan hopar hann frá tvisvar í senn. Hið þriðja sinn rennir hann að hliðinu; kastar Jón kóngur þá orðum á hann og spyr hver þar færi og hvað hann héti. Sá svarar og segist Alheimur heita. „Hvert er erindi þitt?“ segir Jón kóngur. „Skylt erindi á ég hingað,“ segir Alheimur, „ætla ég að sækja unnustu mína.“ „Hvar er hún?" segir Jón kóngur. „Hér liggur hún grafin í garðinum,“ segir Alheimur. „Er hún fyrir löngu dauð?“ segir Jón kóngur. „Fyrir litlu deyði hún,“ segir Alheimur. „Hvað dró hana til dauða?“ segir Jón kóngur. „Sótt höst og hörð,“ segir Alheimur. „Mundi sóttin sjálfkrafa eður menn valda?“ segir Jón kóngur. „Þau völd má ég mér kenna," segir Alheimur, „gjörða ég það með kunnáttu minni að mærin sýndist sjúk og síðan örend og fal með henni öndina, var það fyrir þá sök að ég vilda það engi maður nyti hennar utan ég.“ Nú þykist Jón kóngur vita hver sú er sem þeir ræddu um og mælti: „Það var mín unnusta, en ei þín.“ „Aldrei skaltu hennar njóta,“ segir Alheimur; brá hann þegar sverði og hjó til Jóns kóngs, en hann skauzt undan högginu að hundi Alheims er var fyrir framan hestinn og drap hann, leizt honum sem hann mundi lítt bæta ef þeir Alheimur ættist við. Hjó Alheimur þá aftur til Jóns kóngs; þess höggs vildi hann ei bíða og hjó í móti til Alheims og í því sama höggi höfuð af hesti hans og sjálfum honum aðra höndina sem á var haukurinn, og haukinn til dauðs. Þá mælti Alheimur: „Beggja þarf ég handanna þar sem ég á heima;“ sneri síðan brott við svo búið og kvað þetta:

„Hestur er lestur, haukur er dauður,
hundur er sviptur lífi,
gengur drengur úr garði snauður,
gott hlaut ekki af vífi.“

Gekk Jón kóngur þá til manna sinna og lét jafnsnart grafa þar til sem festarmey hans lá og taka hana upp, fannst hún þá heil og lífs, varð þar mikill fagnafundur með þeim Jóni kóngi, en frændur hennar urðu svo fegnir að ei má greina. Drakk Jón kóngur svo brúðlaup sitt með sæmd og virðingu og fór síðan heim í ríki sitt með konu sína.