Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Jón Ásmundsson í Njarðvík

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Jón Ásmundsson í Njarðvík

Einhvurn tíma í fyrndinni var fátækur flökkudrengur að nafni Jón Ásmundsson að flækjast um í Njarðvík. Var þá höndlunarmáti sá að höndlað var eingöngu á sumartímanum, en búðum lokað á vetri. En svo vildi til að í þetta sinn voru óþerrar miklir og fiskur óþur so fólk beiddist eftir að höndlan mætti ganga um haustið og veturinn og að eftirliggjari (commissaire) mætti vera þar um veturinn, og lét kapteininn það eftir svo góss allt var í land flutt og til búða. Þegar því var lokið voru nokkur svokölluð hálffet og alfet af járni niðrí fjöru og var kapteinn að ganga þar á milli. Hann gengur að einu hálffeti og lyftir rétt upp með annari hendi og segir: „Hvur mun jafnsnjall mér?“ Þetta sér fólk margt og undrast krafta hans, en fyrnefndur Jón gellur við og segir: „Ekki getur mér ægt þetta,“ og segir við kaptein: „Hvurju viltu veðja að ég leiki þetta eftir?“ Kaptein segir: „Ég skal veðja fjórum merkum gulls.“ Jón gengur þá að hálffetinu og þrífur upp mikið hraustlega. Kapteini gremst og telur þó út veðféð, en segir: „Næsta sumar mun ég koma með son minn að hann reyni krafta þína.“ Jón gefur þessu öngan gaum.

Nokkru þar eftir siglir kaptein út, en eftirliggjari skal vera þar um veturinn; hann talar til Jóns og segir: „Veiztu hvurn kaptein kallar son sinn?“ „Nei,“ segir Jón. Eftirliggjari segir honum það sé blámaður því hann eigi engan son, og megi hann nú flýja eða ef hann vilji vera hjá sér í vetur skuli hann vera honum innan handar. Jón kýs það heldur og á hann þar góða daga.

Þegar kemur fram á vor sjá menn skip koma. Eftirliggjari segir þá til Jóns: „Nú er annaðhvurt að þú búist til mótvarnar og skal ég nú útbúa þig á móti blámanninum.“ Hann vefur hann síðan allan í köðlum og smeygir tigulkníf upp með erm[i] hans. Nú er kaptein lagztur á höfn og hrópar óðar: „Er Jón Ásmundsson viðstaddur?“ Hann svarar: „Hér er ég“ – og í sama vetfangi fleygir mikill jötunn sér í sjóinn öskrandi og froðufellandi og svamlar að landi þar sem Jón er fyrir. Þegar þeir finnast þrífur blámaður hann hátt í loft og ætlar að brjóta hvurt bein í honum, en Jón kemur standandi niður; þetta gengur nokkrar reisur. Blámaður var í síðri kápu og fer að klæða sig úr henni, en Jón sætti því lagi og tekur knífinn á meðan hinn er að afklæða sig, og rekur í hjarta hans. Þegar kaptein sér að hetja sín er fallin kemur hann í land og segir við Jón: „Það held ég fjandinn hjálpi þér.“ „Ekki er það,“ segir Jón, „en veðféð vil ég hafa sem vóru sex merkur gulls“ – og afgreiðir kaptein það, en segir um leið: „Að sumri mun ég koma með rakka minn og láta hann leika við þig.“ Jón svarar því öngu. Þegar kaptein er sigldur kemur eftirliggjari á tal við Jón og segir: „Veiztu hvað hann kallar rakka sinn?“ „Nei,“ segir Jón, „það er mér sama.“ Eftirliggjari segir: „Það er versti og stærsti jagthundur og máttu nú búast við sem bezt.“

Þegar vordagar koma fer eftirliggjari að minna Jón á að búast til mótvarnar – „og skal ég nú hjálpa þér nokkuð.“ Hann vefur hann sem áður og fær honum stöng með fjóreggjaðri linsu skrúfaðri í annan endann. Þegar kaptein kemur á höfnina kallar hann sem áður á Jón. „Hér er ég,“ svarar Jón. Fleygir þá mikill hundur sér í sjóinn og syndir að fjörunni hvar Jón var fyrir, með gapandi kjafti, en Jón otar stönginni, og gekk sá leikur lengi þar til seppi vill bíta í stangarendann, en Jón fylgir laginu og keyrir hana fast í kverkar honum þar til hann spýr blóði og fellur dauður niður. Kaptein sér þetta og kemur í land og furðar sig á mætti Jóns. Jón segist vilja fá veðféð, hvað hinn og gjörði, voru það átta merkur gulls, en segir: „Komdu fram á skip mitt Jón.“ Hann gerir það. Kaptein gengur ofan í kahettu og kemur upp með bók, opnar hana og tekur úr henni laust blað og segir við Jón: „Ég skal veðja við þig heilum gullsjóð ef þú verður að vori kominn með bók þá sem þetta blað er úr.“ Jón gefur því lítinn gaum og skilja þeir svo, en kaptein siglir á sínum tíma. Eftirliggjari hafði verið á skipinu þegar þetta gerðist og segir því til Jóns einhvern dag: „Vissir þú úr hvaða bók blað þetta var?“ „Nei,“ segir Jón. „Það var úr Gráskinnu sem sjálfur fjandinn hefur og enginn annar, og máttu nú flýja.“ „Ekki mun það verða,“ segir Jón. „Þá skal ég nokkuð hjálpa þér,“ segir eftirliggjari, „og veitir þér ekki af tímanum.“ Hann skrifar síðan bréf og fær Jóni og segir hann skuli finna og færa presti þeirra er Kristján hét. Jón fer með bréfið og afhendir presti. Hann les og segir: „Langa ferð átt þú fyrir höndum, drengur minn.“ Síðan skrifar hann bréf og fær Jóni, og rautt hnoða sem hann segir hann skuli fylgja.

Jón kveður prest og heldur áfram leiðar sinnar nótt og dag yfir kletta og klungur, gjár og gljúfur í einlægu myrkri. Loksins sér hann skímu tilsýndar sem birtir smátt og smátt. Síðan kemur hann á græna og slétta völlu. Þar stendur bær og kirkja við. Hnoðað rennur á þrepskjöldinn og nemur þar staðar. Jón vill litast um, en hnoðað er fast og spottinn við hendi hans. Stúlka kom þar fram til hans. Hann fær henni bréfið, en talar ekkert (því það setti prestur honum fyrir). Hún gengur inn með bréfið, kemur aftur og tekur hnoðað og leiðir hann svo inn í stásslegt hús og færir honum mat og drykk. Jón situr svo þarna nótt og dag og verður öngra manna var nema þegar messað var sem hann sá og heyrði um gluggann. Einn dag gengur inn til hans gráhærður og greppleitur maður í prestbúnaði. Hann heilsar Jóni og segir: „Vel hefur þú haldið skipanir séra Kristjáns hálfbróðir míns og er ég nú kominn með bók þá sem þú ert eftir sendur og hefur verið erfitt að ná henni,“ – fær honum svo bókina og bréf og segir Jóni að honum veiti nú ekki af tímanum til heimferðar eða hvað hann haldi tíma líði. Jón segir það muni nálægt miðjum vetri. „Þá hefur þér ekki fundizt langt því nú er sumardagur fyrsti.“ Hann kveður svo prest, en þjónusta hans (dóttir prests) fylgir honum á leið.

Hann heldur svo leiðar sinnar eftir hnoðanu þar til hann kemur til prests. Hann tekur honum vel og segir honum muni vera mál að halda til Njarðvíkur. Þegar hann er þar kominn sjá menn skip koma af hafi og er það kapteininn. Þegar hann er kominn á höfnina hefur eftirliggjari boðað bændur í kaupstað að taka út vörur sínar. Kaptein hrópar eftir vanda á Jón Ásmundsson, en eftirliggjari svarar það muni nú á öðru ríða fremur en finna hann þar sem fólkið sé orðið bjargarlaust og nær dauða komið af bjargarskorti, og drífur til báta að flytja vörur í land og er nú allt á flugi. Eftirliggjari segir við skipmenn að þeir skuli allir koma af skipinu í land með seinustu bátunum; verður þá kaptein um borð eftir. Þá fer eftirliggjari með Jón á báti og hafa Gráskinnu. Þegar þeir nálgast skipið segir eftirliggjari: „Nú skaltu taka á móti bókinni sem þú baðst Jón um í fyrra,“ – og réttir hana fram á skipið með langri stöng. Þegar kaptein hefur tekið við henni kastar hann gullsjóð í bátinn til Jóns, en þeir róa hvatlega að landi, en í sömu andránni sjá þeir að skipið sökkur (líkl. til helvítis) og segir ekki meir af kapteini, en eftirliggjari bað prest sinn fyrir Jón og fór hann þangað. Prestur kenndi honum lestur, skrift og reikning, sem hann ekki áður kunni. Honum fór fljótt fram í því og öðrum menntum. Varð hann síðan skrúðdjákni prests og unntust þeir vel. Loks fékk hann dóttur prests og var haldin vegleg veizla. Þau fluttu sig á væna jörð í sókninni, eignuðust þrjú börn, tvo drengi og eina stúlku, sem uxu upp og urðu efnilegar manneskjur. Síðan dó Jón hér um bil miðaldra og þar við lýkur sögunni.