Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Kálfar

Úr Wikiheimild

Maður hét Kálfar. Hann bjó á þeim bæ er að Krossnesi heitir; sá bær er í Trékyllisvík. Hann var forn í skapi og myrklyndur, auðugur að fé. Skömmu fyrir dauða sinn flutti hann gullkistur sínar upp á tinda þá er síðan eru við hann kenndir og kallaðir Kálfarstindar fyrir ofan Krossnesbæ í útnorður og mælti svo að enginn skyldi geta náð kistum sínum nema það sveinbarn er ekki væri skírt að kristnum sið, heldur væri jafnskjótt eftir fæðinguna flutt út í Grímsey á Steingrímsfirði og lifði þar af mjólk brúnnar hryssu er flytja skyldi út í eyna jafnframt og sveininn.