Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Kórmakshaugur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Kórmakshaugur

Í norðanverðu Melstaðarnesi eigi langt frá sjó stendur haugur einn sem kallaður er Kórmakshaugur.

Einu sinni tóku nokkrir menn sig til og fóru að grafa í hauginn. Grófu þeir þangað til þeir komu niður á kistu. Kistan var allstór og koparhringir í göflunum. Þeir grófu niður með kistunni og fundu kopar eða látúnsfat. Því næst reyndu þeir til að hefja kistuna upp úr haugnum, drógu reipi í annan gaflhringinn og létu einn manninn fara undir kistuna til að lyfta henni upp. En þegar kistan var nærri því komin upp úr haugnum slitnaði hringurinn úr gaflinum svo hún datt á manninn sem undir var, og drap hann, en haugurinn hrundi saman. Hættu þá hinir við gröftinn og hurfu frá, höfðu með sér hringinn og fatið og gáfu Melstaðarkirkju. Var fatið síðan brúkað fyrir skírnarfat í kirkjunni og hringurinn er þar enn í dag í kirkjuhurðinni.

Það er sagt að oft hafi síðan verið grafið í haug þenna, en ætíð verið hætt við það vegna býsna sem sézt hafi við hauggröftinn, því annaðhvort hafi sjórinn sýnzt ganga á land eða Melstaðarkirkja vera að loga.