Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Kúludraugarnir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kúludraugarnir

Sigurður Magnússon var prestur á Auðkúlu 1652-1657. Hönum var sendur draugur í konulíki af Vestfjörðum og fannst hann dáinn og illa útleikinn á milli Auðkúlu og Svínavatns. Bóndinn á Reykjum sá til hennar nær hún fór upp hjá og spurði hvert hún ætlaði. Hún kvaðst vera send til að drepa prestinn á Kúlu af því að hann væri bezti prestur á landinu. Bóndi bað hana að gjöra svo vel og koma við er hún færi til baka og segja sér fréttirnar. Hún kom við á Reykjum er hún fór heimleiðis aftur og spyr bóndi þá hvernig farið hefði; hún sagði af hið sanna. Hann spyr hvort hún hafi þá eigi fleira gjört illt af sér. „Börnin voru að leika sér á Mosfelli,“ segir hún, „og langaði mig í leikinn með þeim; blakaði ég við einu þeirra og lá það dautt á vellinum.“ „Hver ráð eru til að lífga það aftur?“ spurði bóndi. „Það er að taka því blóð,“ segir hún, „undir litlu tánni.“ „Jæja farðu þá,“ segir bóndi, „og dreptu þann er þig sendi.“ Og tók hún þá strikið vestur.

Séra Jón Jónsson var prestur á Auðkúlu 1803-1817. Hann drukknaði niður um ís á Svínavatni og þóttust menn sjá hann þar á eftir ríða um vatnið í tunglsljósinu, en ávallt hleypti hann ofan í hjá Svínadalsárósnum og var þar að bisa við að ná hestinum upp úr. Nokkrir þykjast og síðan hafa séð sr. Jóhann sál. Pálsson, dó 1840, og sr. Þorlák Björnsson, dó 1832, í fylgd hans. Þykir mönnum sem þessir vilji villa vegu manna á Svínavatni á veturnar, en sr. Þorlákur sál. er sá sem áttar menn allajafna aftur. Hann ríður þá fram fyrir hina og veifar hvítum klút, og fer þá villan af ferðamönnum.