Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Kerlingin á Möðruvöllum
Kerlingin á Möðruvöllum
Þegar Árni prestur Halldórsson bjó á Möðruvöllum móti amtmanni Grími var það eitt sinn að kelling ein gömul var þar grafin sem Guðrún hét. Hjá prestinum var drengur einn gjálífur og ógætinn. Fer hann að leiði kellingar og mælir til hennar slæmum orðum og manar hana að koma upp; var þetta á fárra viti á staðnum. Kvöldið eftir á vökunni fer drengurinn að sofa, og er hann var sofnaður brýzt hann um fast með dæsum og drunum. Reynt er að vekja hann og vinnst það seint; þó vaknar hann um síðir og segir þá honum hafi þókt kelling koma til sín ófrýnlig í bragði, leggjast ofan á sig og taka höndum óþyrmliga um háls sér. Þókti honum sem hún mundi þar kyrkja sig. Prestur ámælti drengnum mjög harðliga fyrir fíflsku hans, fór út að leiði kellingar, var þar nokkra stund, og vitjaði hún ekki drengsins framar.