Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Ketill prestur í Húsavík
Ketill prestur í Húsavík
Fyrir norðan var prestur að nafni Ketill; hann var Jónsson og bjó á Húsavík.[1] Hann lét grafa upp líkkistur úr kirkjugarðinum og sagðist hann gjöra það af því að svo rúmlítið væri orðið í kirkjugarðinum, en ekki væri annað en órými að þessum kistum þar sem líkin væru alveg rotnuð.
Einu sinni stóð svo á að þrjár kerlingar voru frammi í eldhúsi og voru að brenna kistunum; stökk þá úr eldinum neisti og á eina kerlinguna; kviknaði fljótt í fötum hennar og svo líka í fötum hinna kerlinganna því að þær voru allar nærri hvorri annari. Var eldurinn svo ákafur að þær voru allar dauðar áður en fólk kom til og slökkti eldinn. Um nóttina dreymdi prest að maður koma til sín og sagði: „Þér skal ei auðnast að rýmka til í kirkjugarðinum þótt þú sért að rífa upp kisturnar okkar því nú hef ég drepið þrjár kerlingar hjá þér til hefndar fyrir oss, og taka þær upp nokkurt rúm í garðinum og ennþá fleiri skal ég drepa ef að þú lætur ekki af þessu athæfi þínu.“ Fór maðurinn svo á burt, en prestur vaknaði og gróf aldrei framar upp neina kistu úr kirkjugarðinum.
- ↑ Ketill Jónsson varð prestur í Húsavík 1517, fékk Presthóla 1535 [Ísl. æviskrár]. Fremur mun þó átt við Ketil Jónsson, prest í Húsavík 1728-1775.