Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Möðrudals-Manga

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Möðrudals-Manga

Bjarni Jónsson var síðastur prestur í Möðrudal; síðan hafa þar þjónað ýmist [prestar] frá Hofi eða Hofteigi. Til hans telja menn ættir sínar. Kona Þórðar prests Högnasonar á Kirkjubæ í Hróarstungu, Guðný Gunnlaugsdóttir, var skammt frá honum, einföld kona mjög, og fleiri.

Upphaf Bjarna prests var lítið; hann var fjósadrengur lítilhæfur á Skriðu í Fljótsdal hjá Jóni sýslumanni Þorlákssyni. Einfaldir sögðu að klínt hefði verið á hann prestsvígslu til að magna draug sem mikið átti að útrétta, drepa bezta mann í Fljótsdal er Magnús hét, og fleira illt. Magnús þessi flýði til Magnúsar prests Péturssonar á Hörgslandi sem réði honum til þá hann færi til baka austur aftur að varast að líta nokkurn tíma til baka hver býsn og fádæmi sem á gengi á eftir honum. En á Skeiðarsandi gat hann ekki haldið sér frá að líta aftur. Þá sá hann átján uppvakninga utan um þennan draug sem honum var sendur, og vóru búnir að koma honum á knén. En óðar en maðurinn leit [við] brauzt draugurinn upp undan hinum og varð að lyktum Magnúsi að bana. Svo verður að segja hvorja sögu sem maður hefur heyrt.

Bjarni varð síðan prestur í Möðrudal;[1] kona hans en fyrri hét Margrét, en seinni konuna man ég ekki. Margrét elskaði Bjarna prest mikið, en dó af barnsförum. Áður hún dó bað hún mann sinn muna sig um að giftast ekki aftur. Bjarni hét henni því. Áður hún lagðist var hún að prjóna mórauðan smábandssokk. Strax eftir að hún var látin fór að bera á afturgöngu hennar. Heyrðu menn á nóttum bústang mikið frammi í búri og eldhúsi. Sáu hana oft bæði freskir og ófreskir. Var hún með faldskuplu eins og áður, gildvaxin, því ekki fjölgaði hjá henni, og var ætíð að prjóna mórauðan smábandssokk. Ekki leið langt að Bjarni fékk sér konu aftur. En þá hún steig í eina sæng hjá Bjarna presti og var komin upp fyrir hann í rúmið kom Manga og settist fyrir framan hann á rúmstokkinn. Þá sagði Bjarni: „Farðu í burtu, Margrét; það er úti sú tíð sem þú átt hér að vera.“ Mikið gekk á af afturgöngu Möðrudals-Möngu; hún kvaldi konu Bjarna prests, og um síðir varð hún henni að bana. Í þriðja sinni fékk Bjarni sér konu. Honum var ráðlagt að fá einhverja þá konu, sem Margrét hafði ekki [séð]. Sótti hann hana í Vopnafjörð; mig minnir hún héti Ragnhildur, og mun hún hafa lifað Bjarna prest.

Bjarni varð bráðdauður milli Eiríksstaða og Hákonarstaða á Efradal (Jökulsdal) snemma vetrar, fannst síðla dags, og var tjaldað yfir líkinu og fengin til að vaka yfir tjaldinu ung stúlka einhuga sem Guðrún hét frá Eiríksstöðum. Hún varð kona Þorvarðar er bjó síðar á Hallgeirsstöðum í Jökulsárhlíð, föður Guðmundar bónda á Aðalbóli í Hrafnkelsdal, föður Önnu, sem enn lifir. Tjaldið stóð skammt frá Jökulsá; tunglsljós var á, en dró frá og fyrir. Hún sagði að um dagsetrið hefði komið hrafnaflokkur mikill upp úr gilinu, gráir á lit, og sóttu svo freklega að tjaldinu að hún hafði engin ráð með að verja það; þó hún ræki þá frá einni tjaldskörinni voru þeir búnir að rífa hina upp. Þetta gekk alla nóttina til dags, en alla nóttina sá hún Möngu sitja í brekkunni fyrir ofan, og var að prjóna smábandssokkinn mórauða. Guðrún sagðist aldrei hafa verið eins þreytt eins og eftir þá nótt. Hún hafði fyrir sér nýja svuntu um kveldið, en um morguninn var hún útslitin, svo lét hún svuntuna ganga. Guðrún þótti fyrirtaks kona meðan hún lifði.

Eftir lát Bjarna prests lagðist Möðrudalur í eyði vegna reimleika, en húsin stóðu svo ferðamenn neyddust til stöku sinnum að leita sér skjóls, þá dagþrota urðu, svo sem var Gísli prestur gamli Gíslason á Desjarmýri þá hann kom frá vígslu og fór til brauðs síns; hann varð dagþrota og fór þar inn allt í baðstofu og bjóst þar um á palli. Hápallur var í baðstofunni og sinn pallur í hvorum enda. Þá hann var kominn upp á pallinn og litaðist um sá hann að Manga sat framan á hápalli og var að prjóna. En þá hann leit hana steyptist hún ofan, en alla nóttina heyrði hann bústang mikið frammi, hurðaskelli og koppaköst, svo honum kom ekki dúr á auga.

Annar maður leitaði þar náttstaðar eitt sinn. Þá sat hún á hápalli sínum og var að prjóna. Hann var einhuga, tók upp tóbaksbauk sinn og bauð henni í nefið. Henni brá svo við að [hún] fleygðist ofan og fór að bauka í búri og eldhúsi svo gestum varð ekki svefnsamt.

Þetta og þessu [líkt] höfðu menn í frásögnum af Möðrudals-Möngu.


 1. 1. Ekki þóttu kraftmiklar ræður Bjarna prests í Möðrudalskirkju. Heyrt hef ég eina klausu litla; hún er svona: „Vér höngum, vér höngum, eins og skeifa undir afgömlum húðarklár; æ! tak þinn himneska naglbít og drag oss undan þeirri fúlu veröldinni og kasta oss í þína skrifliskistu þar eð vera mun eilíf sæla. Amen! Amen!“ Þá eftir messu sagði kerling ein við prest: „Mikið heiðarlega fórst yður í dag, séra Balli.“ Þá sagði prestur: „Þú ert ekki vönd að, kella!“ – Líkt þessu er mælt að séra Grímur hafi kveðið vers á stól:
  „Úr hrosshóf bölvunar, heiminum,
  herra, drag nagla smá
  miskunnar hamri með sterkum,
  munu þar klaufir á;
  í ruslakistu á himnum
  oss varpi náð þín há,
  þar elskan hoppar innan um.
  Amen, halelújá.“
  S. G.