Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Melrakkadalsdraugurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Melrakkadalsdraugurinn

Seint á átjándu öld bjó maður sá að Melrakkadal í Víðidal er Halldór er nefndur. Hann hélt vinnumann er Sveinn hét. Það var eitt vor að bóndi fór til fiskikaupa vestur undir Jökul eins og margir gjörðu á þeim tímum og gjöra enn. Átti hann kaup við mann einn þar í fiskiverinu, en þá greindi mjög á í kaupunum og hét kaupanautur bónda að launa honum síðar viðskiptin. Bóndi gaf sig ekki að því og fór með skreið sína norður. Leið nú svo sumarið að ekki bar til tíðinda.

Öndverðan vetur eftir var það einu sinni um kvöld að Sveinn vinnumaður bónda smalaði fé hans og rak heim. Hann sér að eitthvað fer með fjallshlíðinni fyrir sunnan bæinn á undan sér og sýnist honum vera maður. Fjárhús voru á neðanverðu túninu og stefnir þetta þangað og hverfur þar. Bóndi beið Sveins við húsin því hann ætlaði að láta inn með honum féð. Sveinn rekur féð þegar eftir og heim að húsunum. Í því kemur bóndi í móti honum hlaupandi og er hið mesta ofboð á honum. Sveinn spyr því hann hlaupi svo. „Mér sýndust eldglæringar vera um allt húsið sem ég var inni í, og hélzt ég ekki við,“ segir bóndi. Sveinn segir að sér hafi sýnzt maður ganga heim að húsunum á undan sér, „eða sástu engan?“ segir hann við bónda. „Nei,“ segir bóndi, „og get ég á að þú hafir þar séð sendingu frá kaupanaut mínum fyrir vestan; hefir hann nú ætlað að efna heit sitt við mig það í vor“. Ekki urðu þeir Sveinn neins varir meðan þeir létu féð inn, en eftir þetta fór að bera á reimleika á bænum. Sókti draugur svo að bónda að hann hafði aldrei frið nema þegar Sveinn var hjá honum, og mátti hann eigi skilja við hann.

Í þenna tíma var sr. Snorri prestur að Húsafelli. Það orð lék á að hann kynni margt fyrir sér. Bóndi fór þess á leit við prest að hann tæki við sér um tíma og reyndi að koma fyrir draugnum. Prestur gaf kost á því og kvað á að bóndi kæmi til sín næsta haust. Um haustið fór bóndi suður og Sveinn vinnumaður hans með honum. Fóru þeir Arnarvatnsheiði og voru um nótt í Grettisskála. Sókti þá draugurinn að bónda meir en nokkru sinni fyrr og fekk Sveinn varla varið hann; mátti hann aldrei sofna um nóttina. Daginn eftir héldu þeir að Húsafelli og tók prestur vel við þeim. Um kvöldið eru þeir bóndi og Sveinn látnir hátta saman og er þeir eru háttaðir gengur prestur um gólf fyrir framan rúm þeirra til þess komið er fram yfir miðnætti; segir þá að þeir muni mega sofa í friði það eftir sé næturinnar. Um morguninn segir prestur bónda að svo sé draugurinn magnaður að eigi muni honum duga að fara í Norðurland aftur, en svo hafi hann getað um búið, að ekki muni draugurinn gjöra honum mein þar syðra. Réði þá bóndi af að bregða búi sínu fyrir norðan næsta vor. Var hann á Húsafelli síðan meðan hann lifði og ásókti draugurinn hann ekki eftir það.