Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Mjólkurkannan

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Bjarni Jónsson er kenndur var við Laxamýri þar sem hann bjó síðast og deyði áttatíu ára að aldri bjó fyrst á Draflastöðum í Hnjóskadal. Kona hans hét Helga. Einu sinni um sumartíma kom ferðamaður nokkur kunnugur þeim hjónum að Draflastöðum og fann Helgu að máli. Hún var kona gestrisin og bauð manninum greiða, en hann neitaði og kvaðst ekki mega dvelja ferð sína. Hún fer og sækir mjólk í könnu, býður honum að drekka, en hann vill það eigi og segist ætla að eiga hana hjá henni þegar hann komi aftur, kveður hana síðan og fer leiðar sinnar. Ætlaði hann austur yfir Hnjóská, en fórst í ánni; fannst líkið og var grafið á Draflastöðum. Nóttina eftir jarðarför hans dreymir konuna að hann kemur til hennar og biður hana um mjólkina; hún gefur engan gaum draumnum. Aðra nótt dreymir hana manninn að hann kemur og heimtar mjólkina með frekju og er nú heldur ófrýnn. Konunni þykir vant úr að ráða og kemur henni til hugar að hún fyllir könnuna, sömu er hún áður hafði borið honum, með góða mjólk, ber hana í kirkjugarðinn og hellir mjólkinni yfir leiði mannsins. Eftir það dreymdi hana hann ekki.