Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Peningahálftunnan

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Það voru einu sinni tveir bræður; annar var ríkur, en annar fátækur. Sá fátæki var giftur og átti mörg börn, en sá ríki var ógiftur og bjó á kirkjustað. Einu sinni leggst sá ríki veikur og deyr. Nú átti sá fátæki að erfa þennan bróður sinn, flytur sig á kirkjustaðinn og sezt að búslóð hans. Þó þótti honum lítið koma fyrir af peningum því þeir fundust engir. Nú tekur bóndi það fyrir að hann lofar engum manni að vera sem á ferð er.

Eitt kvöld kemur til hans aumingja kerling illa búin og biðst húsa. Bóndi neitar því nema hún segi sér hvað bróðir sinn hafi gjört af peningum sínum áður en hann dó. Hún kveðst ekki búast við að geta það, en segist þó vilja reyna. Nú er kerling látin fara í bæinn og upp á loft og sett þar á rúm. Henni eru bornar góðgjörðir, en hún þiggur ekki; segir hún að ei muni sér af veita að fara út í kirkju ef hún eigi að líta eftir peningunum sem bóndi hafi talað um; skipar bónda að útvega sér skósíða léreftsskyrtu og fer hún í hana. Í kirkjugarðinum hafði verið grafinn maður um daginn og um leið hafði komið mannsístra mikil úr garðinum. Kerling fer út í kirkjugarð og nuddar skyrtuna með mannsístrunni og upp úr vígðri mold. Síðan fer hún út í kirkju og biður bónda að hjálpa sér upp á bita, segir honum svo að fara inn í bæ, læsa kirkjunni og koma á morgun í dögun. Nú fer bóndi burt, en kerling situr eftir.

Þegar hún hefur setið litla stund sér hún hvar fjöl sprettur upp úr kirkjugólfinu þar sem bróðir bónda var grafinn því það var siður á þeim tíma að grafa mikla menn og ríka innan kirkju. Þar sem fjölin spratt upp kemur stór maður og þekkir kerling að þetta var bróðir bónda. Hann litast um í kirkjunni og sér hvar kerling situr á bita. Hann gengur til hennar og spyr með dimmri röddu hvort hún sé dauð. Hún svarar engu. Þá gengur hann að gröfinni aftur og tekur líkkistuna sína upp úr gröfinni og setur á grafarbakkann, gengur til kerlingar og spyr aftur hvort hún sé dauð. Hún gegnir með daufri og dimmri röddu og segir: „Ég er dauð.“ Svo fer hann að gröfinni aftur ofan í hana, setur á grafarbarminn hálftunnu, gengur síðan að kerlingu og spyr ennþá hvort hún sé dauð. „Já, ég er dauð,“ segir kerling. Síðan gengur sá dauði að gröfinni, tekur hálftunnuna og hvolfir úr henni peningum á gólfið. Hann fer og leikur sér að peningunum, eys þeim yfir sig, upp yfir höfuðið og aftur fyrir sig. Kerling horfir á þetta, situr kyrr og lætur ekki til sín heyra.

Þegar líður undir daginn sópar hinn dauði peningunum saman og upp í hálftunnuna og setur síðan ofan í gröfina; tekur kistuna sína, setur hana ofan í líka og leggst í kistuna. Að því búnu fer fjölin í samt lag aftur. Nú dagar og bóndi kemur út og spyr hvort kerling sé lifandi. „Já, að nafninu,“ segir hún, „og hjálpaðu mér ofan af bita þessum.“ Hann gjörir það. „Nú þarftu,“ segir bóndi, „að koma til bæjar og fá þér hressingu.“ Það hentar ekki,“ segir kerling, „ef að hugsa á um að ná peningunum hans bróður þíns og komdu þegar með menn og láttu þá rífa upp gröfina.“ Bóndi fer til bæjar, en kerling er kyrr í kirkjunni, og kemur hann bráðum með menn sem rífa upp gröfina. En þegar þeir ætla að ná upp kistunni þá er hún svo óþæg og þung að þeir ná engu. Kerling kveðst vilja reyna að hjálpa þeim og kemst þá kistan bráðum upp. „Nú skuluð þið ofan í gröfina,“ segir kerling, „og leita fyrir ykkur hvort þið finnið ekkert meira.“ Þeir leita og finna hálftunnu, reyna að koma henni upp og þá fer hinn dauði að brölta í kistunni. Mennirnir ætla að verða hræddir, en kerling segir að ekki skuli þeir kæra sig um þetta og sezt klofvega yfir kistuna. Þá taka þeir hálftunnuna, fara með hana til bæjar, en kerling situr eftir og segir mönnunum að koma bráðum aftur og grafa hinn dauða, en seinast kveðst hún sjálf ætla að ganga frá gröfinni. Nú er grafið aftur og menn ganga á burt. Þegar kerling er að ganga frá gröfinni kemur bóndi til hennar og segir hún að hinn dauði muni nú engum mein gjöra. Síðan tekur bóndi kerlingu til sín og er hún hjá honum til dauðadags. En við hinn dauða varð aldrei vart síðan og kann ég ekki þessa sögu lengri.