Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Pjakkur

Úr Wikiheimild

Draugurinn Pjakkur er svo til kominn eftir því sem sagnir herma sem nú skal greina:

Maður bjó á Rauðamýri á Langadalsströnd í fyrri daga, Ásgeir að nafni. Guðrún er nefnd kona hans. Þau hjón voru vel fjáreigandi. Eitt sinn var það að förudreng aumligan bar að húsum þeirra í moldkafaldi á vetrardag. Pilturinn var mjög tötralega búinn og baðst gistingar. Tók Ásgeir því seinliga enda latti kona hans að drengnum væri veitt gisting og fyrir hennar áeggjan úthýsti Ásgeir bóndi honum. Pilturinn kvaðst mundi finna þau hjón í fjöru ef hann biði dauðann af húskaskap þeirra sem hann sagði sig óra fyrir að verða mundi. Fór piltur þaðan í þungu skapi og þarf ekki að orðlengja það að hann varð úti, en eftir lát hans urðu menn þess varir að hann fylgdi Ásgeiri og ættmönnum hans, en Pjakkur var drengur þessi nefndur af því að hvar sem hann var sén þá otaði hann stafbroddi sínum og stundum heyrðist broddurinn gnauða fast er hjarn var. Pjakk er svo lýst að hann sé á sauðsvartri peysu með lambhúshettu fornfáliga. Ásgeir þótti jafnan sækja illa að meðan hann lifði og sama orð lagðist á afkomendur hans því Pjakkur var öllum þeim kynstaf fylgisamur. – Svo er sagt að ófreskir menn sæju Pjakk oft, enda í alglaða sólskini, hvað þá heldur er dimma tók.