Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Presturinn á Borgarhrauni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Presturinn á Borgarhrauni

Mörgum árum eftir að Langi-Vatnsdalur lagðist í eyði og allir bæir voru niður fallnir hékk kirkjan á Borgarhrauni nokkurn veginn uppi. Maður einn ferðaðist yfir dalinn: kom þá á hann illviðri mikið svo hann tók það ráð að leita hælis í kirkjugarminum. En þegar kom fram yfir dagsetur þótti honum fara að fjölga um gesti og komu æ fleiri og fleiri. Líka sýndist honum fyllast með þoku og dimmu. Ekki þótti honum þessir gestir mjög skemmtilegir. Meðal þeirra var einn sem hann ætlaði að mundi vera prestur hinna, þó framdi hann ekkert það sem líktist kristilegri guðsþjónustugjörð, miklu heldur það sem honum þótti óhæfa og leiðinlegt. Alla þessa nótt var maðurinn í prédikunarstólnum. En þegar dagaði fór að fækka um í kirkjunni og síðast gekk sá út sem hann hugði að mundi vera prestur og sagði um leið og hann gekk út: „Draugur er ég sokkinn í jörð og svo erum vér allir.“ Ekkert varð ferðamanninum að meini, en þegar birti fór hann á stað og komst heill til mannabyggða og sagði þegar þessa sögu.