Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Rauðiboli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Rauðiboli

Þegar séra Tómas Skúlason var á Grenjaðarstað (1786-1808) hélt hann tvo vinnumenn; hét annar Bjarni, en hinn Marteinn. Þeir sváfu tveir einir frammi í skála í bænum. Bjarni var áður kvongaður, en hafði skilið við konuna og af því hann fór að leggja ástarhug á aðra stúlku þar nálægt vildi hann umfram allt losa sig alfarið við konu sína. Hann tók þá upp á því að hann fékk af kunnáttumanni einhverjum þar nyrðra að kenna sér að vekja upp draug sem hann ætlaði að senda konu sinni til að gera út af við hana. Bjarni fór síðan að vekja upp drauginn og sleikti náfroðuna af vitum hans eins og lög gera ráð fyrir, en að því búnu réðst draugurinn á hann og lauk svo þeirra viðskiptum að draugurinn varð Bjarna yfirsterkari og komst Bjarni með illan leik lífs undan honum. Svo fór því fjarri að draugur þessi yrði Bjarna að þeim notum sem hann hafði til ætlazt að hann ásótti Bjarna bæði í vöku og svefni eftir þetta svo Bjarni varð hálfsturlaður af öllu saman ráðlagi sínu; þess vegna varð þeim Marteini og honum oft ekki svefnsamt á nóttum í skálanum því draugurinn var einatt að berja skálann utan og halda fyrir þeim vöku þangað til Bjarni fór ofan og var þá úti lengi eða skemmri tíma næturinnar. En ekkert vita menn um það hvað þeim Bjarna hefur þá farið á milli nema hvað hann sagði sjálfur frá þegar hann kom inn aftur til Marteins.

Þegar þetta hafði gengið um stund fór Bjarni að verða hálfbrjálaður annað veifið og í þeim vandræðum sínum leitaði hann enn til kunnáttumanns nokkurs og bað hann að kenna sér ráð við þessari ásókn draugsins. Maðurinn fékk honum blað með einhverjum stöfum á og segir honum að hann skuli fara einhverja nótt út í kirkjuna á Grenjaðarstað, skrýðast öllum messuskrúða og standa þar skrýddur fyrir altarinu um nóttina innan í gráðunum og hreyfa sig ekki þaðan hvað sem fyrir hann beri eða hverjir sem honum sýnist til sín tala því þeir vilji ginna hann út fyrir gráðurnar og þá væri úti um hann. Seinast sagði hann að mundi koma rauður boli ákaflega stór og vilja slæma tungunni milli hans og altarisins, en þá lægi honum lífið á að vera svo handlaginn að koma seðlinum á tungu bolans og ef honum tækist það mundi hann ekki þurfa að kvíða árásum draugsins framar. Eftir þetta fór Bjarni eina nótt út í kirkju og fór að öllu eins og fyrir hann var lagt. Kom þá til hans hver mannhringurinn á fætur öðrum umhverfis gráðurnar og þekkti hann mjög fáa þeirra. Þeir ávörpuðu hann með ýmsu móti og báðu hann með blíðu og stríðu að fara frá altarinu og koma út fyrir til sín. Einn af þeim sem Bjarni þóttist þekkja þar var séra Hallgrímur Scheving, afi dr. Schevings, og vildi hann teygja Bjarna til sín út fyrir gráðurnar. Hringirnir hurfu burt hvor eftir annan þegar þeir gátu engu áorkað með að koma Bjarna frá altarinu. Loksins kom til Bjarna rauði bolinn; hann teygði tunguna inn fyrir gráðurnar og vildi bregða henni milli Bjarna og altarisins eins og hann ætlaði að flensa hann út fyrir. En þá heppnaðist Bjarna að koma seðlinum á tungu hans og hvarf boli þá í sama bili enda varð Bjarni einkis var eftir það í kirkjunni og aldrei urðu síðan brögð að draugaaðsókninni að honum.