Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Reimleikarnir í Kverkártungu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Reimleikarnir í Kverkártungu

Á Kverkártungu á Langanesströndum býr bóndi, Páll að heiti, son Páls Eiríkssonar er ferðaðist suður á land og víðar. Í fyrrahaust[1] var Páll bóndi að leysa hey í hlöðu að kveldi dags, þá heyrir hann barið högg ofan í þekjuna. Hann fer út, en sér engan; það gengur þrisvar að hann verður við engan mann var. Hann lýkur við verk sitt, en finnst þó ei til. (Hann er á lífi, frí við öll hindurvitni og hugleysi.) Hann gengur heim eftir þetta, en í því [hann] kemur á hlaðið er maður þar kominn og segir honum lát Páls föður hans. Í mæli hefir verið að eitthvað hafi fylgt þeim Páli.[2]

Eftir þetta fer að bera á reimleika á bænum, að bæði Pál og fólkið dreymir illa; hann og það sér stundum á kveldin hvítan strók, stundum þokumökk, stundum eins og hálft tungl; oft sá bóndi þetta í fjárhúsunum. Svo fóru leikar að allt fólkið og konan fór á burt í vor og á annan bæ, en Páll varð eftir og kveðst aldrei skuli þaðan fara, hvað sem á gangi, og sagt er að þá Páll væri orðinn einn hafi hann komizt í meiri kröggur. En í haust varð Páll minna var við þetta, en kona hans sá þetta oftar og óttalegra en fyrr og skal hún vera orðin sinnisveik af hræðslu.

Lengra er ekki komið sögunni og ætla ég [við] að bæta ef eitthvað fréttist um þetta.[3]

  1. Þ. e. haustið 1860.
  2. Sumir þóttust sjá fylgja honum Þorkel son hans er hvarf á Öxnadal og aldrei hefir fundizt, og töldu það til þess að Páll hefði átt að þiggja mútu til að sleppa bæði leitinni og prófinu. [Hdr.]
  3. Sbr. Tungudraugurinn.