Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Reimleiki á Auðkúlu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Reimleiki á Auðkúlu

Í langan tíma eða að minnsta kosti það sem af er þessari öld hafa prestar ekki þótt verða langgæðir á Auðkúlu sem oftast er nefnd Kúla, því síðan um 1800 hafa þar þjónað átta prestar, en níu hafa haft veitingu fyrir brauðinu, en einn kom aldrei þangað. Ekki er nein vissa fyrir því að reimleiki þessi standi í nokkru sambandi við söguna um Sigurð prest á Auðkúlu[1] því litlar sögur hafa farið þaðan frá því hann dó og þangað til á þessari öld.

Frá 1803-1817 var þar prestur sá sem hét Jón Jónsson hinn eldri, faðir séra Daníels sem lengi hefur verið á Kvíabekk og þeirra barna. Séra Jón var vel látinn bæði af sóknarfólki sinu og öðrum sem maklegt var því hann var góðgjörðamaður og greiðvikinn. Hann var og búsýslumaður mikill og mátti vel eins og flestir prestar á Kúlu og unni hann því staðnum[2] mjög. Einu sinni voru vermenn nótt hjá honum sem oftar í suðurleið um vetur. Veitti hann þeim að vanda sínum góðan beina og daginn eftir er þeir fóru af stað fylgdi hann þeim út yfir vatn (Svínavatn) sem lá þá með ísi. Þó kallað sé að Svínavatn liggi allt enda á milli er það sjaldan að þar séu ekki vakir í einhverstaðar og er það mál manna að það sé nykrinum að kenna sem sé í Svínavatni, en líkara er að vakirnar komi af kaldavermsli sem rennur í vatnið auk þess sem í það falla og úr því ár og lækir, en við ármynnið og lækjarósana er hættast við að vakir verði enda verður þess vart á ýmsum stöðum. – Þegar séra Jón skildist við vermennina neytti hann þess að hann átti góðan hest er hann reið þá sem endrarnær, og er það í mæli að til hans hafi átt að sjást heiman að frá Kúlu er hann hleypti hestinum og eins það er hesturinn steyptist með öllu saman í vök eina út undan Kúlunesi. Þó eru þar um missagnir nokkrar sem ljóðmæli þau sýna sem kveðin voru um hvarf séra Jóns; þar er þetta úr:

„Vers til mönnum fylgja fór
fús með engum þjósti;
töðualinn teygði jór
á Tvíblinds kvinnu brjósti.“

Þar í er og þetta:

„Enginn veit um afdrif hans
utan hvað menn sáu
skaflaförin skeifberans
á skör til heljar lágu.“

Og enn var þetta kveðið um atburð þenna:

„Kúlu deyði klerkur frá,
komst í neyð þar vökin lá;
vatnið reið í Svína sá
sínum skeiði jórnum á.“

Hvort sem nú sannara er að sézt hafi til prests frá Kúlu er hann reið í vökina eða hitt sem önnur vísan segir, var farið að leita hans er hann kom ekki heim. Sáust þá skaflaförin eftir hestinn að vökinni öðrumegin, en hattur prests og starkóngur af beizli hans hinumegin. Af því var það ráðið að prestur mundi hafa komizt upp úr vökinni aftur og ætlað síðan að draga hestinn upp, slitið þá starkónginn af beizlinu, náð svo til hestsins aftur, en hann dregið prest í vökina. En prestur fannst ekki allan veturinn fyrr en um vorið að ísa leysti af vatninu og var hann þá slæddur upp; festist ein slæðan í blárri peysu silfurhnepptri er hann hafði verið í um daginn sem hann drukknaði eins og hann var vanur að vera þegar hann hafði minna við því þá var enn ekki sá vani orðinn að prestar væru almennt kjólklæddir heima eða heiman ef þeir fóru skammt.

Þegar sama daginn sem séra Jón fór í vatnið þótti hans verða vart. Á úthallandi degi var vinnumaður í Stóradal að gefa fé í garðahúsi. Þegar hann kom fram á garðann með fyrsta hneppið sá hann að allar ærnar höfðu troðizt saman í aðra króna, en hin var tóm fram úr gegn. Honum þótti þetta undarlegt og fer að gá betur að. Sýnist honum þá séra Jón á Kúlu standa innarlega í auðu krónni í bláu peysunni sinni silfurhnepptu. Maðurinn heilsaði honum kompánlega; en prestur tók ekki undir við hann. Maðurinn yrðir þá eitthvað á hann aftur, en allt fór á sömu leið, prestur gegnir ekki að heldur. Fer svo maðurinn inn aftur í heytóftina eftir öðru hneppinu og hugsar að þetta séu glettur af presti og hafi hann ætlað að gjöra sér bilt við með þessu. Þegar hann kemur fram á garðann með næsta hneppið sér hann að féð er búið að jafna sig á garðann í báðum krónum, en prest sér hann hvergi. Þykist hann þá vita að hann muni hafa farið heim að bænum í Stóradal og muni hann hitta hann þar. Eftir það lýkur maðurinn útiverkum og kemur svo heim; spyr hann þá hvar prestur sé, en heimamenn sögðu að þar hefði enginn prestur komið allan þann dag. Maðurinn bað þá ekki segja sér neitt af því þar sem hann hefði með eigin augum séð prestinn í bláu peysunni sinni og hann hefði komið til sín meðan hann hefði verið að gefa á eitt húsið, og vildi alls ekki trúa því að hann væri þar ekki hvernig sem heimamenn synjuðu fyrir það þangað til hann gekk úr skugga um það sjálfur að prestur hefði ekki getað komið að Dal um daginn þegar hann frétti seinna frá Kúlu hvernig farið hafði.

Sama veturinn sem séra Jón eldri dó fékk séra Jón yngri veitingu fyrir Kúlu, faðir séra Jóns sáluga á Barði í Fljótum og Þorsteins heitins Jónssonar kaupmanns í Reykjavík († 1859) og þeirra barna. Áður hafði hann verið prestur í Goðdölum í Skagafirði (1800-1817). Hann vildi fyrir hvern mun komast að brauðinu og bújörðinni allri um vorið, en ekkja séra Jóns eldra, Ingibjörg Oddsdóttir frá Miklabæ, var eftir á Kúlu með mörgum börnum og vildi hún gjarnan búa á Kúlu næsta ár með því ekki lá þá hentugt jarðnæði á lausum kjala handa henni. Séra Jón yngri var kappsmaður og vildi vera einn um hituna á Kúlu og vann það með fylgi sínu að bóndinn í Litladal var borinn út þaðan frá ekkjunni um vorið svo hann kæmist einn að Kúlu. Þó séra Jón yngri beitti síður en ekki í þessu neinu harðfylgi við ekkju séra Jóns eldra, því honum fórust flestir hlutir vel til hennar, héldu menn að séra Jóni eldra hefði ekki líkað það að ekkja sín færi frá Kúlu með því hann hafði sjálfur í lifanda lífi haft svo miklar mætur á staðnum og því er mælt að hann hafi ásótt bæði nafna sinn og aðra hvort heldur þeir voru frá Kúlu eða ætluðu þangað gestkomandi og jafnvel þá sem voru á ferð um vatnið og vildi varna þeim upp af því eða teygja þá út í það með ýmsum öðrum blekkingum sem sagt er hann hafi haft í frammi, en hvorki drap hann fénað fyrir séra Jóni yngra né olli illum aðsóknum á undan honum.

Af því þeir höfðu verið hvor annars prestur séra Jón yngri meðan hann var í Goðdölum og séra Jón Konráðsson á Mælifelli (1811-50) var mjög kært með þeim og vildu þeir ekki slíta það þó séra Jón yngri flytti vestur í Húnavatnssýslu; skyldi því séra Jón Konráðsson koma að norðan vestur þangað til að taka við nafna sínum haust og vor, en hinn fara aftur norður til að veita séra Jóni Konráðssyni sömu þjónustu. Eitt vor kom séra Jón Konráðsson að norðan á fyrsta í páskum að Svínavatni og hitti þar nafna sinn eftir messu og ætluðu þeir að verða samferða yfir vatnið að Kúlu því Svínavatn lá þá með hestís. Þegar þeir fóru af stað frá Svínavatni urðu þeir nafnar samferða, en þegar þeir voru komnir ofan á vatnið fór séra Jón á Kúlu að taka sig frá nafna sínum og fylgdarmanni hans og stefndi þvert úr leið suður í vatnsenda. Séra Jón Konráðsson gefur ekki um það og hugsar með sér að hann færi þenna krók til þess að hafa sprettinn því lengri því vatnið er ekki meir en góður sprettur á breidd milli landa þegar það liggur, en Kúlu-Jón hafði ágætan reiðhest. Ríður svo séra Jón frá Mælifelli beina leið yfir vatnið að Kúlu og sér ekkert til ferða heimaprestsins. Var þá enn beðið eftir honum langa stund og verið að gæta hvort hann kæmi ekki. En það dróst. Síðan matast séra Jón Konráðsson og er þó annars hugar eins og aðrir að nafni sinn skuli ekki koma og þó mest af því að hann fylgdi honum ekki. Síðan smádimmir að kvöldi og fóru allir út á Kúlu að gæta og hlera hvort enginn kæmi. En það varð ekki. Síðan vöktu menn alla nóttina og var kveikt í hæstu gluggum, en veður var gott um nóttina, logn og frost, og voru allir heimamenn úti við eins og milli heims og helju og ekki sízt séra Jón Konráðsson.

Svo leið nóttin að heimapresturinn kom ekki og allt fram á dag og fram til þess að fólk fór að koma til kirkjunnar á annan í páskum og var það spurt um séra Jón; en enginn kunni neitt af honum að segja eða ferðum hans. Fór mönnum þá ekki að dáma að þessu og var nú ráðgert að fá söfnuðinn til að leita dauðaleit að honum. En í því kom séra Jón ríðandi neðan úr Kúlunesi; í því nesi er Kúluengi norður af bænum. Hann var með gleðibragði er hann kom, en bæði berhöfðaður og berhentur og svipulaus. Allir urðu fegnir komu hans sem nærri má geta, en einkum kona hans og börn og þá ekki hvað sízt séra Jón vinur hans. Hann var spurður að því hvar hann hefði dvalið, en hann vildi ekki segja neitt frá því nema að ekkert hefði gengið að sér. En hann undi því verst að hann hafði misst vettlingana sína, svipuna og hattinn því hann var einstakur gætnismaður og aldrei vanur að glata neinu slíku þó honum þætti góður sopinn. Kona hans bað hann lofa sér að ráða því að hann færi aldrei fylgdarlaus þaðan í frá hvorki að Svínavatni né annað. Séra Jón sagði að héðan af þyrfti hann enga fylgd framar og mundi sig ekkert saka. Það eitt lét hann menn í ráða. Síðan var embættað um daginn og var heimapresturinn til altaris sem ætlað var.

Margar getur voru um það hvað séra Jón hefði tafið, en ekki urðu menn þess vísari að heldur. Sumarið eftir á engjaslætti þegar farið var að slá í Kúlunesi fannst svipan prestsins og vettlingarnir; lá það kirfilega hvað hjá öðru á þúfu einni lengst norður í nesi rétt á vatnsbakkanum og þóttust menn þá vita að það mundi hafa verið villt um prest þar sem séra Jón Konráðsson vissi það til ferða hans síðast að hann reið suður í Vatnsenda, en þaðan er góð bæjarleið út í Kúlunes sem presturinn hafði orðið að fara og ríða út eftir vatninu fyrir neðan og fram hjá Kúlu. Það voru og getur manna að því aðeins hefði hann lagt af sér svipu og vettlinga að hann hefði eitthvað þurft til að taka og héldu menn að þeir nafnar mundu hafa glímt þar heldur lengi, séra Jón eldri og yngri, og hinn yngri orðið hinum yfirsterkari að lokunum, en ekki gáð sín fyrir glímuskjálftanum þegar búið var og skilið eftir vettlingana og svipuna á þúfunni; en hatturinn fannst aldrei. Þetta réðu menn mest á því sem presturinn hafði svarað konu sinni til um fylgdina sem áður var sagt og svo því er síðar kom fram, bæði við séra Jón sjálfan og aðra.[3]

Í öðru sinni var það að séra Jón yngri var á ferð á sumardag með konu sinni og börnum og dugandis fylgdarmanni út með vatni fyrir utan Vatnsvík, að hann tekur sig þvert frá þeim sem með honum voru og ríður út í vatnið. Kona hans kallar til hans og biður hann fyrir alla muni að gjöra ekki þetta. En hann hélt áfram og lét sem hann heyrði það ekki. Ríður hann svo lítið lengra, en þá þykist fylgdarmaðurinn sjá sitt óvænna ef hann fari lengra því þá muni hann hleypa á sund; ríður hann því út í á eftir honum og kemst fram fyrir prest og spurði hvern fjandann hann ætlaði. Þá hló prestur og sneri við hestinum til sama lands.

Fleiri voru það en séra Jón yngri sem menn héldu að séra Jón eldri hefði viljað teygja í vatnið eða sem sögur hafa farið af að hann hafi varnað að komast upp af því. Maður hét Steinn og var Guðmundsson. Hann var uppeldisson Bjarnar heitins Ólafssonar klausturhaldara á Þingeyrum. Af því Steinn var ötull maður og fylginn sér léði Björn heitinn hann að Kúlu eftir andlát séra Jóns yngra til að standa þar fyrir búi með ekkjunni með því tengdir voru á milli Þingeyra- og Kúlufólks. – Steinn þessi villtist tvisvar á vatninu á ís um vetur er hann var á ferð. Í fyrra sinni þegar svona fór kom hann heim að Kúlu með ofboðslegu yfirbragði, talaði ekki orð frá munni og sinnti engum; fór hann þá og háttaði, en gat hvorki fest svefn né fengið værð. Þar með var hann svo hræddur og órór að það varð að vaka yfir honum fram undir morgun. Þegar leið fram á daginn bráði svo af honum að hann gat sagt frá því að þegar hann kom út á vatnið hefði sér heyrzt maður vera á ferð á hlið við sig og hefði sér heyrzt hann ganga heldur hraðara en hann sjálfur svo hann hefði komizt á undan sér þegar Steinn var nærri kominn yfir vatnið; en þá hefði villt svo um sig að hann hefði ógjörla vitað hvað hann hefði gengið, en hvert sem hann hefði haldið hefði þessi sami maður alltaf orðið fyrir sér; loksins hefði hann komizt upp af vatninu og þekkt sig þá og hlaupið heim í dauðans ofboði. Þessum manni lýsti Steinn eins og séra Jón átti að hafa verið í hátt er hann drukknaði.

Í öðru sinni var Steinn eitthvert hátíðiskvöld fyrir handan vatn og sat við spil fram eftir. Í vökulok fór hann heimleiðis, en þegar hann kom á vatnið villtist hann sem fyrri. Átti hann þá og við hinn sama og áður alla nóttina er varnaði honum upp af vatninu allt fram í dögun. Þegar hann kom heim að Kúlu var hann að vísu með dæsum og andköfum, en ekki eins utan við sig og hræddur eins og fyrra skiptið. Var þá Steini ráðlagt að vera ekki í þriðja sinni seint á ferð á vatninu því það er almælt að ef maður verður þrisvar fyrir sama draugnum skilji þeir ekki vandræðalaust og ríði það á lífi mannsins ef hann á ekki því meira að sér.

Ekki var það heldur Steinn einn sem fyrir þessu varð, að þeim væri varnað upp af vatninu, því einu sinni var Kristján bóndi í Stóradal á ferð yfir vatnið seint um kvöld á vortíma, en ísinn orðinn ótryggur; kvartaði hann undan því að sér hefði verið tálmað að komast á land af vatninu. Þetta var allt kennt þeim sama.

Einn vetur sem séra Vigfús Reykdal var í Hvammi í Laxárdal kom hann oft að Kúlu til séra Jóns yngra, frænda síns. Einu sinni í vökulok heyrðu menn á Kúlu að skreiðzt var upp á glugga, guðað þar og beðizt húsa. Ekki þekktist málrómurinn vel, en þó var farið til dyra. Var þar þá kominn séra Vigfús, draghaltur og stokkbólginn annar fóturinn um hnéð. Hann sagði frá því er hann kom inn að hann hefði lengi vel í kvöld ekki hugsað að hann mundi ná í náttstað á Kúlu því síðan fyrir dagsetur um kvöldið hefði hann verið að villast aftur og aftur, en þekkt sig alltaf við sama steininn rétt fyrir sunnan Kúlutún; hafði villan komið yfir hann er hann fór upp af vatninu því eftir stefnunni átti hann að koma norðan að bænum, en var kominn suður fyrir hann að fyrrnefndum steini. Hann sagði að maður á blárri peysu, og lýsti honum enn ítarlegar, hefði allan þenna tíma verið að vefjast fyrir hestinum og þetta þóf hefði þeim gengið svo hann hefði ekki komizt heim að bænum fyrir honum. Loksins hefði þessi maður fleygt sér niður fyrir framan hestinn og hesturinn dottið um hann, en fóturinn á sér orðið undir hestinum og því væri hann bólginn. Þá sagðist séra Vigfús hafa farið að taka piltinn til bænar og kveða að honum með fullum stöfum. Við það linnti villunni svo prestur komst heim, en lengi lá hann á Kúlu sem hann gat ekki stigið á fótinn.

Eitt er og það sem haft hefur verið í frásögum að þegar vermenn hafa farið á vetrardagskvöldum eftir vatninu með hesta hafa þeir þráfalt getið þess að einhver muni hafa verið þar á reið á afbragðs-gæðingi því þeim hafi heyrzt eins og hesti væri skellt á skeið og hann teygður eftir ísnum, en sjaldan hafa þeir þótzt sjá neinn.

Þó keyrði aldrei um þverbak með reimleikann á Kúlu fyrr en seinasta veturinn sem séra Jón yngri lifði því þá þóttust bæði heimamenn og afbæjarmenn, stundum jafnt óskyggnir sem skyggnir, sjá eldri prestinn ganga þar ljósum logum. Þar í Svínadalnum var húskona ein sem Sesselja hét; hún var bæði skyggn og skýr; þar með kunni hún vel fyrir sér til handanna ýmsa tóvinnu og var því víða fengin á bæjum til vinnu. Þenna sama vetur var hún nokkra stund á Kúlu; var hún þá einu sinni að prjóna peysu á móti dóttur séra Jóns yngra sem Margrét hét uppi á baðstofulofti, en stigagatið var við endann á rúmi því sem Margrét sat á. Fólkið tekur eftir því að Sesselja horfir um stund ofan í stigagatið og talar ekki orð frá munni, en kafroðnar og rær fram í gráðið. Fer þá að síga að Margrétu einhver flökurleiki og því næst líður yfir hana. Sesselja skiptir sér lítið af því, en einblínir sem áður ofan í stigagatið. Fara þá aðrir að stumra yfir Margrétu og einnig er farið eftir vatni ofan til að dreypa á hana. En á meðan verið er að sækja vatnið segir Sesselja að nú muni henni bráðum batna. Síðan kom sá með vatnið sem eftir því fór og er því dreypt á stúlkuna. Raknar hún þá skjótt við og hressist. Var þá Sesselja spurð hvers hún hefði orðið vör í stigagatinu fyrst hún hefði alltaf haft þar augun á. Hún sagði þá frá því að hún hefði séð gamla prestinn koma upp í stigagatið, en við það hefði farið að svífa að Margrétu; svo hefði hann rétt hendurnar innar að henni úr stigagatinu og þá hefði liðið yfir hana. Þegar maðurinn fór eftir vatninu hefði presturinn hliðrað sér til í stiganum svo hann hefði getað komizt ofan hjá honum og á meðan verið var að sækja vatnið hefði hann farið burtu aftur um það leyti sem hún hefði sagt að Margrétu mundi bráðum batna.

Eitt kvöld sama veturinn bar svo við að séra Jón fór ofan á vökunni; en það var ekki vandi hans. Var hann þá úti langan tíma svo prestskonan fór að undrast um hann og bað hún þá vinnumann sinn einn að fara út að sjá hvað presti liði. Í því sama bili kemur presturinn aftur blóðrauður í andliti. Kona hans spyr því hann hafi verið svo lengi úti eða hvort nokkur hafi komið því hún og aðrir heyrðu að hundarnir geltu á meðan hann var úti. En séra Jón hafði ekki orð á því neinu.

Fleiri urðu þá aðrir tilburðir þann vetur á Kúlu sem undarlegir þóttu, en vér kunnum ekki frá að segja, og þar með fráfall séra Jóns; en hann andaðist eftir stutta legu á sóttarsæng.

Ekki er þess getið að séra Jón eldri hafi gjört jafnmikið um sig síðan, en sézt hefur hann á reið á hesti þeim er hann drukknaði af og sagt er að ef hann sést á ferð með Kúluprestinum muni sá hinn sami ekki verða langlífur.

  1. Sbr. Séra Sigurð á Auðkúlu.
  2. Auk þess sem prestssetur á Íslandi eru almennt kallaðir „staðir“ heitir Kúla í Landnámu Auðkúlustaðir og eins í öllum fornbréfum.
  3. Dóttir séra Jóns, Guðríður, sem var sex vetra er hún kom að Kúlu segir að þetta hafi orðið að vera fyrsta eða fyrstu ár föður síns á Kúlu því aldrei hafði hann farið fylgdarlaus eftir að hún fór að muna til og er því ekki ólíklegt að þetta hafi verið fyrsti fundur þeirra nafna, séra Jóns eldra og yngra.