Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Rifsdraugurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Rifsdraugurinn

Það bar til í Rifi, vestur undir Snæfellsjökli, að sjómenn urðu tóbakslausir. Undu þeir því illa, en urðu að hafa það því hvergi fekkst tóbak í kaupstöðum nema í Hofsósi og Höfðakaupstað. Vöktu þá sjómenn upp draug og sendu hann norður að sækja tóbak. Draugurinn kvaðst ei geta farið nestislaus; því hann sagðist hafa verið kviksettur. En það kvað vera trú að sá draugur þurfi mat sem kvikur hefur verið grafinn. Fengu þeir þá draugnum nesti og fór hann síðan. Segir ekki af ferðum hans. En svo bar við að nokkru eftir fór maður nokkur yfir Fróðárheiði. Hann sá hvar maður sat í brekku einni og var að naga af bringukolli. Hafði hann tóbaksbita allt í kringum sig. Maðurinn yrðir á hann og biður hann að gefa sér upp í sig. Þegar hinn heyrir það bíður hann ekki boðanna og fer þegar af stað. Rak hann undan sér alla tóbaksbreiðuna og fór með hana vestur í Rif. Er svo sagt að ekki þraut þá tóbak þann vetur í Rifinu.