Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sólheima-Móri

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sólheima-Móri

Á öndverðri 19. öld bjó að Skriðnesenni í Bitru bóndi er Finnur hét. Kona hans hét Guðrún, en fósturdóttir Elísabet. Vinnumaður var hjá þeim er Hallur er nefndur. Hallur lagði hug á Elísabet, en það var mjög á móti vilja þeirra hjóna. Hallur átti að róa undir Jökli um veturinn og áður hann fór til sjávar beiddi hann Elísabetar, en var synjað og fór því að heiman í þungu skapi. Um veturinn fyrir þorra fer Elísabet sem oftar til kirkju að Eyri og er hún kemur heim aftur um kveldið sezt hún á rúm sitt, tekur ask sinn og ætlar að fara að borða, en í sama vetfangi snarar hún frá sér askinum, segir að mórauð flygsa ætli að sér, fær niðurfallssýkiskast og er þegar örend.

Upp frá þessu fer að örla á reimleika á Enni; fólk þar fer að láta illa í svefni, verður myrkfælið og sækir illa að þá það kemur á aðra bæi, og annað því um líkt. Bóndi var einarður maður og ber þetta úr fólki, en fyrir sama kemur. Guðmundur hét bróðir konunnar, heimamaður að Enni; að honum sótti hvað mest; sýndist honum það vera strákur búkmikill en klofstuttur, í mórauðri úlpu með lambhúshettu á höfði og skott aftur úr. Nú fóru fleiri að sjá draugsa og á sama hátt og kölluðu því Móra. Guðmundi þótti varla vært um veturinn að Enni; hann fer því að heiman og vestur á sveitir til fjölkunnugs manns. Hann verður þar þess vísari að í Rifi hafi drukknað menn á skipi um eða eftir nýjár og hafi einn þeirra heitið Friðrik, þennan Friðrik muni Hallur hafa fengið mann til að vekja upp og sent Elísabet og fólki hennar og svona sé Móri undir kominn.

Nokkru síðar fluttu þau hjón Finnur og Guðrún sig að Sólheimum í Laxárdal og upp frá því var draugurinn nefndur Sólheima-Móri. Hann varð oft skepnum að lífs eða lima tjóni þegar Finnur var á ferð og margt gjörði hann fleira illt, að menn segja. Bjarni er nefndur Vinnumaður í Sólheimum; hann varð ókennilega veikur með ásvifum og þegar þau komu að honum þóttist hann sjá Móra sækja að sér. Eitt ásvifakastið reið honum að fullu. Jóhann er nefndur annar Vinnumaður að Sólheimum og síðar en Bjarni var, hann var harðskeytinn og ófyrirleitinn og kvaðst aldrei myndi Móra hræðast; hann var fjármaður. Eitt kvöld kom hann ekki heim í sama mund og vant var; var hans þá leitað og fannst hann þá dauður inn í heytóft og líkaminn allur blár og blóðugur. Þá er lík Jóhanns var flutt í kirkjuna sýndist fólki af næstu bæjum sem sá til líkfylgdarinnar sem maður riði fyrir aftan líkið á hestinum, en hesturinn sligaðist undir líkinu á miðri leið og var hann þó talinn úlfaldagripur.

Guðmundur sá er fyrr var getið bjó að Broddanesi. Eitt sinn ætlar hann inn í Hrútafjörð með viðarfarm á skipi, en landveg til baka með kýr og kindur; hann átti hund mjög fylgispakan. Um morguninn er af stað skyldi fara fannst hundurinn hvergi og var hans lengi leitað; loks fannst hann inn undir palli og varð Guðmundur að bera hann nauðugan á skip. Veður var gott; en er skipið kom inn fyrir Kollsá hvolfdi því; tveir komust á kjöl er menn sáu og rak skipið fyrir norðankuli inn eftir Hrútafirði. Bátar þar vóru allir frosnir niður og áralausir; varð því lítið um hjálp, en svo var að sjá sem skipinu væri bægt frá hverju annesi; loks rak það mannlaust í Bæjarnesi. Þessi atburður er kenndur Móra.

Eitt sinn fór Finnur í Sólheimum verzlunarferð að Búðum og verzlaði við lausakaupmann er lá í Búðaósi; á ferðinni í land hvolfdi bátnum. varan týndist og einn maðurinn drukknaði. Rétt áður en bátnum hvolfdi þóttust menn hafa séð fyrir víst að einum var fleira í bátnum en vera átti, og var fullyrt að þar hefði Móri verið. – Það er haft eftir Finni að aldrei myndi Móri granda sér og varð sú raun á. Nú þykir Móri vera orðinn mjög dofnaður og kyrrlátur; samt er ekki trútt um að enn þyki sem Sólheimafólk sæki illa að.

Hallur sem áður er nefndur kvongaðist vestur undir Jökli og þótti jafnan mesta illmenni. Er það haft í frásögum um hann að eitt sinn þegar hann missti dóttir sína og lík hennar lá á börunum reiddist Hallur konu sinni og í hefndarskyni misþyrmdi hann líkinu og braut í því hvert bein.

Ljúkum vér svo þessari sögu.