Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sagan af Jóni Ásmundssyni

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Jóni Ásmundssyni

Einu sinni voru fátæk hjón. Þau bjuggu í Borgarfirði; hét bóndinn Ásmundur. Þau áttu mörg börn og öll ung. Ekki er þess getið hvað þau hétu nema elzti drengurinn hét Jón. Um þessar mundir urðu hörð ár í landi og fóru nokkur saman. Flosnaði þá upp Ásmundur bóndi og fóru börn hans á ýmsa bæi til vistar og uppeldis. Þá var prestur sá í Reykjavík sem Kristján hét; hann tók Jón Ásmundsson til fósturs og óx Jón þar upp.

Jón var snemma vænn að ásýnd og sterkari en aðrir jafnaldrar hans, en áburðarlítill var hann í allri framgöngu, stilltur vel og orðfár og mesti starfmaður. Hafði prestur miklar mætur á honum og eins var hann vel látinn af öllum á heimilinu.

Á einu sumri var það sem oftar að kaupskip kom til Reykjavíkur; var á því útlendur kaupmaður og segir ekki í sögunni um nafn hans. Hann átti mikinn kaupskap við menn og þar á meðal við Kristján prest. Einu sinni þegar prestur var staddur úti á skipi hjá kaupmanni komu þar niður ræður manna að tala um sterka menn. Kaupmaður sem bæði var stór og sterkur gekk þar að sem fjórar tunnur rúgar voru í einum bagga og lyfti þeim til knés og kvaðst mundi gefa þeim manni fimm merkur gulls sem sér væri jafnsnjall í þessu, en enginn varð til þess að reyna þessa aflraun. Þegar prestur kom heim til sín kom hann að máli við fóstra sinn Jón Ásmundsson, hann var þá 18 vetra, og sagði honum ummæli kaupmanns og bað hann freista hvað hann orkaði. Jón lagði fátt til, en kvaðst þó mundi til reyna.

Daginn eftir fór prestur aftur út á skip og var Jón með honum. Þá segir prestur kaupmanni að þar sé kominn sá maður sem vilji vinna til fjárins. Kaupmaður vísaði Jóni þangað sem kornbagginn var, og snaraði Jón honum á herðar sér og bar fram og aftur um þiljurnar og lagði síðan í sama stað. Við þetta skipti kaupmaður mjög litum, en vó þó gullið og greiddi það. Bjuggust þeir prestur og Jón til heimferðar og er þeir kvöddu kaupmann bað hann Jón finna sig áður en hann sigldi frá landi og hét Jón því. Fóru þeir nú heim og var prestur kátur yfir ferð þeirra, en Jón lét sem ekki væri.

Það var einhvern dag áður kaupmaður dró upp akkeri að prestur kom að máli við Jón um að hann hitti kaupmann eins og kaupmaður hafði til mælzt. Fór Jón þá til funda við kaupmann og var prestur með honum. Kaupmaður tók þeim sæmilega og kvaddi Jón til að koma með sér niður í lyftingu. Prestur vill þá fylgjast með, en kaupmaður kvað hann ekki erindi eiga við sig. Prestur kvaðst engu mundi spilla í málum þeirra og varð svo að hann gekk til lyftingar með þeim. Þá segir kaupmaður við Jón að þeir væru ekki skildir enn; kvaðst hann að komanda sumri hafa með sér dreng sinn og skyldi Jón glíma við hann og fá tíu merkur gulls ef hann bæri af honum. Síðan kvöddust þeir og sigldi kaupmaður litlu seinna.

Nú liðu tímar og bar ekki til tíðinda. Um veturinn eftir spyr prestur Jón einu sinni að hvert hann myndi til þess er kaupmaður sagði við hann að skilnaði, en Jón kvaðst þar lítið um hugsa. Segir prestur honum þá að þeir muni einhverra ráða verða í að leita því drengur sá sem kaupmaður ætli að láta glíma við hann sé engi mennskur maður heldur einhver hin versti blámaður, en kvaðst þó mundi sjá til með honum; þyrftu þeir að vera viðhúnir þegar þrjár vikur væru af sumri því þá mundi kaupmaður sigla til hafnar. Ekki gaf Jón sig neitt að þessu. Þegar réttar þrjár vikur voru sumars var það einn dag að skip kom af hafi og sigldi upp til Reykjavíkur. Fór prestur þá til fundar við Jón og sagði honum hvað nú mundi í efni og klæddi hann í úlpu svarta og spennti belti um hann miðjan; fékk honum síðan lítið lagvopn en biturt og bað hann leyna í úlpuerminni. Sagði hann að eigi þyrfti hann að hugsa til að standast fang blámannsins og mundi hann í fyrstu svipan hefja hann yfir höfuð sér, en þá kvaðst prestur vilja svo hlutast til að Jón kæmi standaði niður, en þá skyldi hann skora á blámanninn að hann færi úr loðkápu þeirri sem hann mundi klæddur og skyldi hann á meðan hagræða lagvopninu sér í hönd svo það væri til taks er blámaðurinn renndi að honum í annað sinn. Það var jafnsnemma að skipið lagðist um akkeri og báti var í land róið og var risavöxnum blámanni á land hleypt; hann var á loðúlpu. En þeir prestur og Jón voru í flæðarmáli.

Blámaðurinn renndi strax að Jóni, þreif til hans og sveiflaði honum í háa loft, en Jón kom þegar standandi niður. Þá segir Jón að blámaður skuli klæða sig úr úlpunni og reyni þeir svo aftur glímu; gjörir blámaðurinn svo, en á meðan hagræddi Jón fyrir sig lagvopninu og þegar blámaðurinn æddi að honum í annað sinn hljóp hann undir hann og lagði á honum; áttu þeir síðan nokkrar sviptingar og hefði blámaðurinn orðið honum um of harðhentur ef úlpan hefði ekki hlíft honum. Loksins gekk Jón af blámanninum dauðum. Fóru þeir þá prestur og hann að hitta kaupmann þar sem hann var á skipi sínu og kvöddu hann; kvað prestur að Jón hefði til fjár unnið þar sem blámaðurinn var að velli lagður. Kaupmaður var hinn reiðasti og kvað þá hafa haft brögð í frammi og eigi karlmennsku. Prestur sagði að krókur kom á móti bragði því sá hefði ekki mennskur maður verið sem kaupmaður sendi til fangsins; en hvert þeir töluðu fleira eður færra hér um lauk svo að kaupmaður greiddi gullið, en mælti um leið að Jón mundi finna sig að máli áður hann sigldi frá landi um sumarið. Nú leið og beið þangað til kaupmaður mundi sigla; minnir þá prestur Jón á það sem kaupmaður mæltist til, að þeir fyndust, og kvaðst mundi fylgja honum til fundar við hann. Fóru þeir út á skip og heilsuðu á kaupmann; hann tók því og bað Jón víkjast með sér afsíðis. Jón gjörði svo og fylgdist prestur með. Kaupmaður sagði hann engu skipta samræðu þeirra Jóns, en prestur kvaðst eigi mundi brjála málum þeirra, en nærri vildi hann standa sínum manni. Þá segir kaupmaður að hann mundi á næsta sumri hafa með sér hvolp lítinn og skyldi Jón reyna við hann og skyldi fá fimmtán merkur gulls ef hann sigraðist á honum. Skildu þeir að því. Leið nú þetta sumar og fram langt á vetur og minntist Jón ekki á þessa atburði.

Einu sinni spyr prestur hann hvert hann hugsi nokkuð til orða kaupmannsins, en Jón kvað það ekki vera; þá segir prestur honum að ekki muni betri koma kaupmanns á næsta sumri en fyrri; muni hann nú sigla að landi þegar tvær vikur séu af sumri, en hvelpur sá sem hann ætli honum að reyna sig við sé dýrhundur mikill og grimmur og muni þeir þurfa einhverra bragða í að leita. Jón bað prest sjá fyrir því.

Þegar hálfur mánuður var af sumri sást skip koma af hafi. Kallar prestur þá Jón fyrir sig og sýnir honum svörtu úlpuna sömu sem hann klæddi hann í hið fyrra sumar. Hafði prestur nú riðið hana alla þétt utan með kaðalreipum og klæðir nú Jón í hana. Síðan fær hann honum járn nokkurt atgeirsmyndað og voru á agnúar fyrir ofan fjaðraoddinn og færði svo þar upp á kjötstykki og sagði Jóni að hafa í hendi sér og leita svo lags að hundurinn glefsaði kjötið, en þá skyldi hann þrýsta járninu í gin honum. síðan gengu þeir til sjávar og var það jafnsnemma að skipverjar köstuðu akkeri og hundinum var hleypt upp á land. Hundurinn var mikill og hinn espasti, veikst Jón þá í móti honum, en hann æddi að Jóni með mestu grimmd og ætlaði að rífa hann í hel, en stakkurinn hlífði honum svo hann sakaði ekki. Færðist Jón þá sem hann gat undan árásum seppa og bar fyrir sig kjötstykkið, og fór svo að rakkinn gein yfir það, en Jón fylgdi þá fast eftir lagjárninu og þrýsti í kok hundinum og sleppti ekki laginu hvernig sem rakkinn ólmaðist, en seppi mátti honum ekki mein vinna vegna stakksins unz seppi var dauður. Síðan fóru þeir að hitta kaupmann og kvöddu hann; hann tók seinlega kveðju þeirra og var svartur mjög og bólginn, en leyndi reiði sinni eins og hann gat. Prestur kvað Jón hafa unnið til fjár þess sem honum var heitið hið fyrra sumar. Kaupmaður sagði það hæpið er hann beitti meir slægsmunum en hreysti. Prestur kvað kaupmann vera verri af er hann sendi þvílíkt óargadýr á hendur honum. Reiddi þá kaupmaður gullið, en mælti um leið að Jón skyldi hitta sig að máli áður hann sigldi það sumar.

Líður nú þangað til kaupmaður vill sigla; sagði prestur þá við Jón að hann mætti muna orð kaupmanns að síðustu og kvaðst vilja fylgja honum til fundar við hann. Fóru þeir og hittu kaupmann. Hann bað Jón ganga þegar með sér til lyftingar; þá vill prestur fylgja þeim eftir, en kaupmaður kvað það ekki skyldi, ætti hann þangað ekkert erindi. Prestur sagði Jón vera sinn mann og mundi hann hvergi fara með kaupmanni nema hann væri með. Lét þá kaupmaður svo vera og gengu þeir allir þrír í lyftingu. Þegar þangað var komið tók kaupmaður bók af hillu einni, opnaði hana, tekur þar út eitt laust blað og bregður fyrir augu Jóni eins og hann vildi að prestur sæi ekki, þó varð presti fljótlega litið á án þess kaupmaður gætti til. Lét kaupmaður blaðið síðan þar sem það áður var og sagði við Jón að þá bók sem blað þetta væri úr skyldi hann færa sér á næsta sumri og mundi hann þá vega honum þrjátíu merkur gulls fyrir, en ella skyldi hann bera bleyðiorð; og kvöddust þeir nú að sinni. Fóru þeir prestur og Jón heim til sín, en kaupmaður sigldi þegar til hafs.

Þegar vika var eftir sumars hittir Kristján prestur Jón að máli og spyr hann hversu hann hyggi til um erindi það er kaupmaður ætlaði honum. Jón kvaðst hafa þar litla hugsan á. Prestur spyr hann hvert hann viti hvað blaða það var er kaupmaður sýndi honum, en hann kvaðst engin kennsli bera á það. Prestur kvað þess að vísu ekki von því blaðið hefði verið úr handbók kölska og ætlaði hann honum þá forsending að ná henni en það væri enginn hægðarleikur. Segist séra Kristján eiga einn bróður sem sé prestur í undirheimum og muni hann einn fá hjálpað Jóni í þessu efni og náð handbók kölska, ella muni þess ekki unnt verða. Kvað hann að Jón skyldi nú þegar búast til ferðar í undirheima á fund bróður síns og þyrfti hann að vera þangað kominn á fyrsta vetrardag og dvelja þar vetrarlangt.

Nú býst Jón til ferðarinnar og þegar hann er albúinn afhendir prestur honum bréf til bróður síns og hnoða er leið muni vísa, óskar honum síðan velfarnaðar og leggur ríkt á við hann um að líta ekki á allri leiðinni til baka og enn mætti hann ekki orð tala í undirheimum allan veturinn, og kvað Jón sér það léttbært mundi. Þá leggur Jón af stað, varpar frá sér hnoðanu, en heldur í þráðarendann; valt það svo fyrir unz þeir komu að fjalli einu norður frá Reykjavík og þar í fjallinu sem var eins og hellismunni; þar rann hnoðað inn og gekk Jón eftir; vóru þar myrk göng og óslétt; fór þá svo að Jón hikaði í áframhaldinu, en hnoðað togaði því fastara og herti hann þá upp hugann. Fór hann þannig langa leið þar til birti; sá hann þá fyrir sér völlu slétta og yndisfagra, og var það lengi að hnoðað valt eftir þeim unz komið var að miklu og veglega byggðu bæjarþorpi. Þar staðnæmdist hnoðað fyrir dyrum úti og tók Jón það upp. Hann drap á dyr og kom þar út stúlka. Hún var vel klædd, en þó skartlaus, kurteis í látbragði og hin fegursta sem Jón hafði augum litið. Jón hneigði henni og rétti henni bréfið þegjandi og hún tók við þegjandi. Líka tók hún við hnoðanu og gekk inn með hvert tveggja. Að stundu liðinni kom sama stúlkan út aftur og fylgdi henni önnur sem yngri var og virti Jón fyrir sér og hvarf svo innar. Hin tók í hönd Jóni og leiddi hann inn fyrir dyr og um göng nokkur í herbergi eitt; var þar inni borð lítið og bekkur og eitt rúm; síðan gekk hún á burt og litlu seinna bar hún mat á borð.

Ekki þarf að orðlengja söguna. Jón var þarna lengi og ætlaði að mjög væri liðið á vetur og sá aldrei neinn mann nema sú sama stúlka kom til hans á hverjum degi, bar honum mat og bjó upp rúmið. Aldrei töluðu þau orð og aldrei heyrði hann mannamál. Þá var það einn morgun snemma að maður gengur inn til hans, fríður sýnum, vænn og vel vaxinn. Hann var á svörtum klæðum og síðklæddur og býður hann Jóni góðan dag og var blíður í róm. Jón þagði. Prestur spyr – því þessi maður var bróðir séra Kristjáns – hvert Jón viti hve framorðið sé tímans, en Jón þagði. Þá segir prestur: „Vel gjörðir þú Jón að vera svona stöðugur í þagmælskunni því með því móti hefur nú erindi þitt heppnazt og verður þér þannig launuð stilling þín, en nú er sumardagur hinn fyrsti og máttu því mæla.“ Varð Jón þá glaður við. Segir prestur honum að nú muni hann fara af stað til heimleiðar í dag og megi nú ekki dveljast því kaupmaður komi í þetta skipti þegar vika sé af sumri. Síðan fær prestur honum bók og biður hann vandlega geyma og færa bróður sínum, en eigi muni langt um líða að eigandinn sakni hennar og vitji um hana þegar hún sé komin í kaupmanns hendur. Það sé því ráð að bróðir sinn kaupi þegar allan farm á skipi kaupmanns, þegar hann komi, og flytji á land áður honum sé bókin afhent. Prestur biður hann bera kveðju sína bróður sínum og kveður svo Jón, en segir að dóttir sín muni fylgja honum á leið og vísa honum veg. Kom þá stúlkan til fylgdar við hann; var það sú hin sama sem þjónaði honum til borðs og sængur um veturinn.

Fóru þau af stað og leiddust, og fór svo lengi; ekki er þess getið hvað þau töluðust við þangað til hún nam staðar og kvaðst ekki mundi lengra fara, væri nú og auðvísaður vegurinn sem eftir væri. Segir hún honum að þar hljóti þau að skilja þó þungt falli því sá hlutur sé á að þau geti ekki saman verið og fengið að njótast því hann geti ekki í undirheimum verið og hún ekki uppi á jörðunni. „En,“ segir hún, „ég leyni þig því ekki að ég er ekki kona einsömul og mun ég senda barnið til þín ef það verður drengur, þegar hann er sex ára, en ef það verður meybarn þá þegar hún er tólf ára, og skiptir það mestu að þú takir barninu þá vel.“ Að því búnu réttir hún honum hnoðað, en segir að hann mundi ekki þurfa leiðsögn þess, heldur fara eins og hún vísaði til. Síðan kvöddust þau með miklum harmi, svo þungt féll þeim að skilja.

Fór hann nú eins og hún vísaði honum veg og varð leiðin hvergi torsótt né ískyggileg, og [eigi] vissi hann með hverjum hætti hann fór heima í milli. Hann kom til Reykjavíkur við enda hinnar fyrstu viku sumars og fagnar prestur honum vel og þótti erindin hafa vel heppnazt er Jón bar honum kveðju og boð bróður hans og fékk honum bókina. Var nú allt í senn að kaupmaður lagði inn á höfn við Reykjavík, og fór prestur strax til funda við hann og fór slétt á með þeim í kveðjum. Sagði prestur eins og þá var ástatt að bágæri væri í landi og hart um meðal manna og bað kaupmann selja sér þegar allan skipsfarm og varð það að samningum þeirra á milli og vara þegar öll flutt af skipi á þriggja daga fresti. Að því búnu fóru þeir báðir út á skip og hittu kaupmann, prestur og Jón; innti kaupmaður Jón þegar eftir hvernig farið hefði um erindi hans, en Jón kvað þau mundu leyst verða. Afhendir prestur síðan bókina Jóns vegna og sá hinn að hún var hin rétta og brá mjög í brún. Bað þá prestur hann greiða gull það sem heitið var, og gjörði kaupmaður svo; kvöddu þeir þá kaupmann og stigu í bát sinn, en varla vóru þeir á land komnir er sjórinn ókyrrðist mjög; varð þeim þá litið fram á sjóinn þar sem skipið var og var það horfið þegar og varð þess ekki vart síðan.

Var nú auður mikill saman kominn á prestgarðinum. Liðu nú þau missiri og var Jón þar á vist; þótti hann alténd hafa verið fálátur, en nú síðan hann kom frá undirheimum vóru einkum brögð að um þunglyndi hans. Kom þá prestur eitt sinn að máli við hann um hagi hans og kvað sig gruna að það mundi valda fæð hans að honum hefði litizt vel á dætur bróður síns í undirheimum, og gaf Jón því engin andsvör. Prestur séra Kristján átti þrjár dætur og eru ekki tilgreind nöfn þeirra í sögn þessari. Segir prestur að hann muni gefa Jóni hverja dætra sinna sem hann helzt kysi ef ske mætti honum yrði hughægra. Kom þar loks málum að Jón kaus sér fyrir konu yngstu dóttur prests og gifti prestur honum hana. Fékk hann þeim hjónum jörð einhverja hina beztu þar í nágrenninu til eignar og ábúðar og fóru þau þangað til bús síns; urðu samfarir þeirra góðar og gnógt fjár. Samt lá sá einn hlutur á að Jón bóndi Ásmundsson var svo um of þótti fálátur og óglaður.

Nú liðu mörg ár og áttu þau hjón mörg börn; þá var það einu sinni að barið var að dyrum á bæ Jóns; var fólk allt í baðstofu; sendir bóndi til dyranna einn son sinn, hann var þá sex vetra. Þegar pilturinn kemur inn aftur, segir hann að úti sé komin lítil stúlka og ógn falleg sem hafi heilsað sér blíðlega og beðið sig að skila innar að hún vildi finna hann föður sinn. Við þessi orð var eins og glaðnaði yfir Jóni bónda, stóð hann strax upp og gekk út. Hvarf þá þegar litla stúlkan til hans og kyssti hann og ávarpaði hann með föðurnafni, en hann tók við henni með mestu blíðu og fögnuði. Hún sagðist vera honum send af móður sinni prestsdótturinni í undirheimum og bar honum ástarkveðjur hennar. Jón leiddi hana þegar inn og fyrir konu sína og sagði henni hver ætt hennar væri og hver vandi sér væri á hendi í hennar tilliti, og bað konu sína að vera henni sem móðir eins og hinum börnunum, þeirra hjónanna. Var og konan henni hin blíðasta. Þá var Sigríður, því svo hét stúlkan, tólf vetra er þetta var. Þótti hún afbragð sakir fríðleika og alls atgjörvis. Þegar Sigríður hafði verið með föður sínum um þrjú ár í sóma og yfirlæti bað hún hann einu sinni orlofs að hún mætti finna móður sína, og lét hann það ljúflega eftir henni og leyfði henni að hún mætti hjá móðir sinni vera árlangt ef hún vildi.

Að ári liðnu kom Sigríður heim aftur til föður síns og var henni vel fagnað sem fyrr. Bar hún honum þá kæra kveðju móður sinnar á deyjanda degi og sagði hana látna þegar hún fór úr undirheimum; þar með fylgdi og sú orðsending að Jón mundi aðeins lifa hana um einn mánuð. Það sýndist sem þessi fregn og boðskapur gleddi Jón fremur en grætti og ekki sást honum hið minnsta bregða við. Gjörir nú Jón þegar fullkomna ráðstöfun allra eigna sinna og arfleiddi hann í erfðaskrá sinni Sigríði dóttur sína að jörðinni sem hann bjó á og fannst það á öllu að hann unni henni mest allra barna sinna enda var hún afbragð annara kvenna um allt. Konu sinni og börnum fékk hann allt lausafé og var það auður mikill. Síðan lézt Jón og varð mörgum harmdauði. Nokkrum missirum seinna giftist Sigríður vænum manni og bjuggu þau á jörð hennar sem og var beztur bær í öllu þinginu. Var hún alténd álitin kvenna vænst; unntust hjónin og lifðu saman vel og lengi. Þau áttu fjölda barna og er frá þeim mikil ætt á Suðurlandi.