Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sending (1)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sending

Kona sat á palli og var við vinnu sína. Var hún ein í bænum því bóndi hafði farið eitthvað, en heimilisfólkið var sitt í hvorri áttinni. Kom þá inn til hennar drengur heldur lágur, en þrekinn. Hann spurði hvar bóndi væri, en hún var ekki svo fljót á sér að svara þar hana grunaði margt, heldur spurði hvað hann vildi honum. Strákur kvaðst eiga að finna hann og finna hann duglega. Hún sagðist halda að hann hefði ekki mikið við hann að gjöra þar hann væri svo lítill. Strákur sagðist geta orðið stærri. Það bað konan hann að sýna sér. Fór hann nú að smávaxa, en aldrei þótti henni hann vera nógu stór fyrri en hann hafði náð upp í baðstofumænirinn. Þá sagði hún að hann skyldi fara í sama lag aftur og bað hann síðan að sýna sér hvað lítill hann gæti orðið. Fór hann einlægt smáminnkandi þangað til hann var orðinn eins og tittlingur. Þá tók hún upp glas og spurði hvert hann gæti orðið svo lítill að hann kæmist í það. Þá gjörði hann sig að flugu og fór niður í glasið, en hún var ekki sein á sér og lét líknabelg yfir. Varð kauði þar að kúra. Þegar bóndi kom heim fékk konan honum glasið og sagði honum væri sent það sem í því væri. Tók hann við glasinu og fór með það. Vissi enginn síðan hvað um það varð.

Borgfirðingar hafa niðurlag sögu þessarar á þá leið sem hér segir:

Þegar bóndi tók við glasinu gladdist hann yfir snarræðisbragði konu sinnar og þakkaði henni það innilega. Fór hann síðan með glasið út í smiðju, en bóndi var jámsmiður mikill. Tekur hann þá járnbút, fletur hann út og gjörir hólk úr. Innan í hólk þenna lætur hann glasið með sendingunni í og lokar svo báðum endum á járnhólkinum. Að því búnu sjóðhitar hann járnhólkinn fyrir aflinum og lemur hann svo saman með slaghamrinum sínum á steðjanum. Þetta lét hann ganga þangað til honum þótti járnhólkurinn fullsoðinn saman og fullbarinn. Þá smíðaði hann ljá og hafði járn þetta með í samsuðu í lénið. Þann ljá hafði hann síðan sjálfur og þótti hann bíta furðu vel. En enginn mátti snerta ljáinn nema bóndi einn og sló hann hann upp til agna. Og er nú sagan úti.