Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sendingin á Seljanesi

Úr Wikiheimild

Guðrún hét kona ein; átti hún mann þann er Eiríkur hét. Hann dó snögglega þar hann gætti fjár á Seljaneshlíð hvar þau hjón höfðu búið tvö ár. Eftir lát bónda hokraði Guðrún við þröngan kost á Seljanesi. Hafði hún ekki annað fólk áhalds en eina stúlku og smaladreng og dóttir sína er Þuríður [hét] sem var hin vænsta að vexti, viti og allri atgervi.

Maður er nefndur Þórður Egilsson ungur að aldri og allmennilegur. Hann ólst upp á bæ þeim er að Melum heitir. Þegar Þuríður var sextán vetra gömul kom þar Þórður og bauð sig til fyrirvinnu hjá Guðrúnu ef hann fengi Þuríðar; nefnir það síðan við hana, en hún setur þvert nei þar fyrir. Þórður fer burt í þungum [hug]. Unir hann nú ekki að Melum og gjörist um tíma reikunarmaður. Fer hann síðan til Ísafjarðar; staðnæmist þar vestra að bæ þeim er að Hraundal [heitir]. Nemur hann þá forn fræði að manni nokkrum gömlum er Kálfar er nefndur.

Líða nú fjögur ár og er þá Þuríður tuttugu ára. Þykir hún kvenkostur beztur um allar Hornstrandir og víðar. Einn góðan þerrirdag unnu þær mæðgur að heyi á vellinum. Koma þá geispar undarlegir að Þuríði og vill hún sofa, en móðirin varnar þess því hún þóttist sjá að ekki var svefn sá með náttúrlegheitum. Líður dagur til nóns og starfa þær mæðgur að heyinu; dregur þá upp dökkvan skýhnoðra í norðvestri; kemur bylur einn afar mikill og hvirflar heyinu og þó mest utan um Þuríði, og á þeim vetfangi tryllist hún, kastar hrífu og hleypur til sjóar, og nær Guðrún henni í flæðarmáli og getur erfiðlega komið henni til bæjarins. Liggur nú Þuríður í dvala nokkra stund og æstist síðan so Guðrún hefur nóg að halda henni við rúmið. Kemur þá smali og griðka heim og varð Guðrún að láta stúlkuna sinna búverkum, en sjálf sat [hún] yfir Þuríði. Þegar kvelda fór sá Guðrún smápúka nokkurn ekki fríðan. Leitaði hann eftir að fara krumlum um Þuríði og æstist hún hvurt sinn er púkinn kom nærri. Guðrún var margfróð og þuldi so yfir dolgrímnum að hann heyktist að hug og hvarflaði frá aðra stundina. Um morguninn var Þuríður mjög máttvana og tekur þá Guðrún hana og ber fram á flæðisker eitt og býr um sem liðinn mann í kistu lagðan. Síðan veður hún til lands og var þá smástraumsflóð. Sundið milli lands og skers er að sögn kunnugra manna 1 ½ álnar djúpt um smástraumsflóð, en óvætt um stórstraum; flæðir þá yfir mestan hluta skersins.

Þegar Guðrún er á land komin sér hún púkann fara snuddandi um fjöruna. Síðan vísar hún honum heim. Labbar hann þá vestur fjall og fylgir kelling gestinum úr garði og biður hann aldrei þrífast eða þar koma.

Víkur nú sögunni til Þórðar. Hann lá þennan dag upp í rúmi sínu. Kemur þá sveinn hans og segir Þuríði gengna í sjóinn eða Guðrún hafi villt so sjónir fyrir að hann ekki viti n[e]itt [af] Þuríði. Gætir nú Þórður púkans og hefur á milli til útréttinga. En þar kom, að sögn, að sá var einn óvinur Þórðar að so kunni að hann magnaði þennan sendisvein og lét hörmulega drepa Þórð. Eftir dauða Þórðar giftist Þuríður, en ekki varð hún söm eftir ásókn draugsins. Er það sögn sumra að líka ynni þessi draugur henni bana. Aðrir nefna Sigríði móðir Þuríðar og væri Árnadóttir; kynni hún ekki galdra, en væri ákvæðin og hefði kveðið drauginn frá dóttir sinni.