Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sendingin og séra Jón í Tröllatungu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sendingin og séra Jón í Tröllatungu

Björn Hjálmarsson var lengi prestur að Tröllatungu í Strandasýslu. Einn sona hans hét Jón; lét séra Björn hann læra og tók hann síðan fyrir kapellán. Séra Jón þessi var gleðimaður mikill og hæddist oft að galdratrú og hindurvitnum þar sem hann varð var við að menn tryði slíku.

Sumar eitt var Arnfirðingur nokkur kaupamaður í Tröllatungu og lét sá drjúgt um að hann kynni nokkuð sem aðrir héraðsmenn hans. En sem prestur heyrði þetta tók hann að erta karlinn og bað hann einatt að sýna sér hvað hann kynni og storkaði honum mjög. Kom þá svo um síðir að karl varð reiður og hézt við séra Jón og kvaðst skyldi senda honum sendingu þá sem mundi sýna honum hvað hann kynni. Prestur hló að því og skoraði á Arnfirðinginn að hann efndi heit sitt. Síðan fór karlinn vestur og heim til sín og gleymdi séra Jón þegar heityrðum hans.

Næsta sumar eftir að þetta bar við svaf prestur frammi í skála einum, og eina nótt síðla sumarsins vaknaði hann við það að hann fann að eitthvað fálmaði upp í sængina til sín. Lítur prestur þá upp og þykist sjá púka við rúmstokkinn. Prestur leggst út af aftur og hirðir ekki um. Þá tekur púkinn að leita á hann aftur og kitla hann. Rís þá prestur upp og segir: „Farðu út, of vesall ertu til þess að ég hræðist.“ Þá hvarf púki. En sem lítil stund var liðin sér prestur eins og þéttur gufumökkur líði inn í skálann, og er hann var allur kominn inn sýnist presti sem úr því verði ófreskja sem fyllir upp allan skálann. Þá mælti prestur: „Ekki hræðist ég þig; þú ert ekki nema stærðin eintóm; það verður þó að vera mergur í því sem á að ríða mér að fullu; farðu nú út.“ Leið þá þessi vofa út. En nú datt presti í hug Arnfirðingurinn og man eftir heityrði hans og býst því við nýrri sjón, er þó enn öruggur. Þá sér hann er minnst vonum varði mynd svífa inn úr dyrunum; hún var glóandi sem eldur og í lagi sem þríhyrningur með hvössum hornum. Í sömu svipan sýnist presti að rúm sé við rúm allt um kring í skálanum og liggi maður í hverju og hafa þeir ber brjóstin. Þá sýnist presti að myndin svífi frá dyrunum og reki eitt hornið í brjóst þeim manni er lá öndvert dyrum; sér prestur að hornið sekkur djúpt inn í brjóst mannsins og heyrðist presti hann reka upp vein og deyja þegar. Því næst svífur þríhyrningurinn til þess er næstur liggur og drepur þann með sama hætti og rak sá einnig upp hljóð við sársaukann. Hættir óvætturinn eigi fyrri en allir voru drepnir, að því er presti sýndist. Nú ætlar myndin að fljúga að presti; stökkur hann þá nakinn upp, breiðir út faðminn og segir hátt: „Svo komdu þá, en komdu í Jesú nafni.“ En óðar en prestur hafði mælt þessi orð hurfu allar ofsjónirnar.