Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Silfurdæld eða Djöfladæld

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Silfurdæld eða Djöfladæld

Út frá bænum á Grund liggur graslaus melbrekka, en upp í hana liggur dæld ein grasi vaxin er sagt er að héti Silfurdæld. Á öndverðri 18. öld var á Grund í Eyjafirði Sigfús Þorláksson lögréttumaður. Hann var fjölkunnugur mjög; hann var borinn galdri af Eiríki Jónssyni á Dvergsstöðum árið 1711. Hann átti sökótt við mann undir Jökli vestur. Sá var og hinn fjölkunnugasti maður; sá sendi Sigfúsi átján drauga í senn. Sigfús sá er þeir hófu ferð sína vestan; fer hann þá þegar til kirkjugarðs og vekur upp draug einn skyndilega og magnar hann mjög. En er Sigfús hafði magnað drauginn halda þeir af stað Sigfús og draugurinn. En er þeir voru skammt úr garði komnir mæta þeir þeim vestandraugunun í Silfurdæld; voru þeir þá sautján. Sigfús heilsar á þá og spyr hví þeir eigi voru nema sautján. Þeir kváðust hafa etið einn á Vatnsskarði því að þeir hefði verið nestlausir heiman sendir. Síðan réðu þeir Sigfús á þá vestandrauga og felldu þá alla. Eftir það ræður Sigfús á sinn draug og fer honum og fyrir og heldur heim síðan. Þar heitir síðan Djöfladæld er þeir áttust við, en þó kalla sumir Silfurdæld.