Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Skála-Brandur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skála-Brandur

Það var eitt sinn kall á ferð sem jafnaðarlega var að bæta brauð sitt með ferðaflakki um sveitir. Hann var þá staddur í Berufirði hjá presti nokkrum og atlaði um kvöldið kippkorn að öðrum bæ sem hét Skáli. Það má víst fullyrða að kallinn var tveggja maki, en þá orðinn gamall. Prestur var að afráða hann að fara því það var almæli að draugur væri á Skála sem hefði heitið Brandur so þetta komst til tals milli þeirra prests og kalls, en kall sagðist ekki mundi hræðast hann Skála-Brand og so fór karlinn sína leið. Þegar hann er kominn nokkuð frá bænum þá kemur draugurinn og ver honum að komast til bæjarins og takast þeir á og glíma og kall hafði hann undir, en missti hann aftur. Sagan segir að kall hafi komið með rifin fötin og legið nokkurn tíma á eftir.