Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Skarfa-Gvöndur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skarfa-Gvöndur

Maður hét Guðmundur; hann átti heima á Selströnd hjá ekkju einni. Hann var eitt sinn að skarfaveiði og týndist í þeirri ferð, gekk síðan aftur og kastaði skarfafla sínum upp á pallinn hjá ekkju þeirri er hann var hjá. Er sagt að mjög hafi hann verið illur viðureignar og óspektarsamur. En 80 árum eftir þetta var Jón prófastur Pálsson[1] á viðarferð norður, en kvöldtíma varð hann og menn hans dagþrota og lentu í Grímsey, en einn af prófastsmönnum lét mjög illa í svefni um nóttina svo prófastur vaknaði og spurði hverju gegndi. Var þá sagt að sá er illa lét í svefninum væri nálega kominn ofan í fjöru. Prófastur var alvörugefinn maður og vísaði hinum óhreina anda á burt, en maðurinn vaknaði og sagði að sig hefði dreymt strák eins í útliti og Skarfa-Gvöndur hefði verið sem hefði ætlað að draga sig í sjóinn. Upp frá því varð ekki mjög vart við afturgönguna þó Grímsey byggðist strax þar á eftir.

  1. Jón Pálsson (um 1688-1771) var prestur á Prestbakka 1711-1739 og á Stað í Steingrímsfirði 1739-1767.