Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Skinnpilsa

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skinnpilsa

Hallur faðir prófasts Jóns Hallssonar á Miklabæ bjó lengi á Geldingaholti í Skagafirði. Hann var áður trúlofaður stúlku á Vesturlandi, en sveik hana. Þess vegna sendu frændur hennar Halli kvendraug. Hún var í rauðum sokkagörmum og skinnpilsi og því var hún Skinnpilsa kölluð. Hún fór víða um Skagafjörð. en hafði þó aðalaðsetur sitt í Geldingaholti og kvaldi Hall illa nætur og daga, og fékk enginn komið henni fyrir. Þá tók Níels sem kallaður var skáldi sér ferð á hendur og heimsótti Hall í Geldingaholti; var hann þar svo þrjár nætur að hennar varð ekki vart. Hið fjórða kvöldið um dagsetrið sat Níels móti baðstofudyrum og sá hann þá Skinnpilsu koma inn í göngin. Hóf hann þá að kveða, en Skinnpilsa skaut sér út í vegginn og Níels á eftir henni. Vissi enginn hvernig leikurinn fór, en Níels kom aftur, en Skinnpilsu hefur ekki síðan vart orðið.