Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Skorravíkur-Jón
Skorravíkur-Jón
Maður nokkur að nafni Jón bjó í Skorravík á Fellsströnd, hafði getið barn við dóttur sinni. Hann vildi láta mann þann er Guðmundur hét og var Teitsson ganga að eiga dóttur sína, en Guðmundi var ekki um það gefið einmitt fyrir þessa blóðskömm. Einu sinni um haustið fóru þau öll þrjú á báti út í Stykkishólm. Fyrir utan Hrappsey fengu þau storm svo mikinn þegar farið var að dimma að bátnum hvolfdi, en Jón olli því raunar og var það tilgangur hans að drekkja með því bæði Guðmundi og dóttur sinni. Dóttir hans drukknaði þar og, en Guðmundur komst á kjöl og gat haldið sér þar. Jón var syndur og greip í fótinn á Guðmundi, hvort sem það hefur verið í því skyni að draga hann ofan í sjóinn af kjölnum eða hann hefur ætlað að halda þar dauðahaldi til að frelsa sig. En með því Guðmundur var röskur maður og vildi verja líf sitt sparkaði hann svo hart til Jóns með fætinum að hann sökk. En er Guðmundi skolaði í land sá hann þar Jón afturgenginn og réðst hann þegar á Guðmund. Bogi Benediktsson sem þá bjó í Hrappsey og átti þá eign varð þetta sama kvöld mjög órór, en vissi þó ekki af hverju, sendi því nokkra menn sína ofan að sjó til að vita hvort ekkert hefði að landi borið. Fundu þeir þá Guðmund og lá hann í ómegi; augun voru öll blóðhlaupin og búkurinn allur marinn. Langt leið um áður en hann gat þolað að horfa í dagsbirtuna og hryllti jafnan við er hann minntist á þenna óttalega atburð. Sagan er tekin eftir kvenmanni sem Guðmundur hafði sjálfur sagt hana oftar en einu sinni.