Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Skotinn draugur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skotinn draugur

Árni hét bóndi á Gunnsteinsstöðum í Langadal frá því um 1770 til þess hann deyði 1815. Hann var sonur Sigurðar bónda þar frá 1740, Þorlákssonar frá Ásgeirsbrekku. Um næstliðin aldamót falaði hann fyrir smala unglingspilt, Gunnar son Magnúsar bónda í Vatnshlíð Ásgrímssonar. Þennan sama pilt vildi Sigurður hreppstjóri í Krossanesi í Hólmi einnig fá fyrir smala, en faðir hans vildi heldur hann færi til Árna bónda, og varð það úr. Tók hann því næst við fjárgeymslu á Gunnsteinsstöðum og farnaðist vel til þess eitt kvöld eftir fráfærur að hann kom heim með ótta miklum og kvað sig eltan og ásóktan af draug sem honum sýndist í ýmsum myndum og sem hefði komið til sín á heimleiðinni ekki alllangt frá bænum. Urðu þegar svo mikil brögð að þessu að hann gat enga stund einn verið og hvergi gat hann sofið nema hjá Arnljóti syni Árna bónda, er þá var um tvítugsaldur eða vel það. Sagði Gunnar að draugurinn þyrði ekki að sér þegar hann væri hjá Arnljóti, en nálega ætíð þóktist hann sjá hann álengdar, og oft þegar hann var háttaður virtist honum hann vera út á þekju upp yfir sér. Ekki er þess getið að aðrir sæju drauginn og aldrei sá Arnljótur hann.

Um þessar mundir iðkaði Arnljótur að skjóta og var það eitthvert sinn að hann var úti staddur að hreinsa eður hlaða byssu sína og Gunnar hjá honum. Segir þá Gunnar að nú sé djöfullinn í kolagröfinni sem var þar á hlaðinu ekki alllangt frá þeim. Arnljótur hraðar sér nú að hlaða byssuna. Hann var yzt fata í peysu silfurhnepptri eins og þá var títt (en sú var trú manna að ekki dygði að skjóta á óvætti eða forynjur nema hafa silfur í hagla stað) og tók hann einn hnapp úr peysunni og setti í byssuna, fer síðan að bæjarþilinu, en lætur Gunnar standa á baki sér og segir honum að hafa gætur á þegar fjandi komi upp úr gröfinni og gefa sér þá það merki að grípa í herðar sér, en sjálfur hefir hann byssuna spennta og sigtar í grafarbarminn. Eftir lítinn tíma gefur Gunnar merkið og Arnljótur skaut. Lá þá eftir í gröfinni gráleitur fuglshamur á stærð við lóu og var hann tekinn og geymdur á Gunnsteinsstöðum í 30 til 40 ár. Eftir þetta varð Gunnar einskis var og fékk aftur heilsu sína sem áður. Hann bjó síðar lengi í Geitagerði hjá Reynistað og andaðist gamall fyrir ekki mörgum árum.

Sigurður hreppstjóri í Krossanesi var sonur Jóns Egilssonar þess er lenti í málunum eftir Reynistaðarbræður og voru meiningar sumra að hann og máske líka Sigurður færu eitthvað með kukl. En í mæli var að þá er Sigurði var neitað um Gunnar hafi hann haft í heitingum að Árni skyldi ekki lengi hafa hann fyrir smala, og var því álit manna að draugurinn hefði verið sending frá Sigurði.