Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Snæfjalladraugurinn (2)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Snæfjalladraugurinn

Litlu eftir siðaskiptin á sextándu öld var prestur sá á Snæfjöllum sem hét Jón Bjarnason. Son átti hann sem Bjarni hét eftir föður prestsins. Drengurinn ólst upp hjá föður sínum og átti við slæmt að búa. Þá er hann var sextán eða átján ára var hann fjársmali föður síns. Bar þá eitt sinn um vetur svo til að hann kemur heim kindalaus í dimmum og hörðum kafaldsbyl; hafði hann týnt fénu og gat ekki fundið. Faðir hans brást reiður við og hrekur hann mjög í orðum fyrir fjártýnsluna og skipar að hann leiti fjárins. Drengurinn fer og er mjög æfur í skapi. Áliðið var dags og veður fór æ versnandi. Fer hann út bakkana frá Snæfjöllum. En sem hann kemur á hengjuskafl þann sem vant er að leggi við sjóinn í Drangsvík týnist hann í kafaldsmyrkrinu þar fram af.

Eftir dagsetur um kvöldið er heima á Snæfjöllum barið dyra heldur óþyrmliga; þorir enginn til dyra að ganga. Mælir þá prestur sem grunar að ekki muni allt með heilu og sem dálítið kunni í hinum fornu fræðum, að bezt muni hann sjálfur vitji dyra og fer hann. En sem hann lýkur hurð í klofa, sér hann út að Bjarni sonur hans er þar kominn afturgenginn og æstur mjög; vill hann í bæinn. Prestur varnar honum þess og getur með fjölkynngi sinni séð svo um að afturgangan varð engum að meini. Þó er mælt að Bjarni gengi ljósum logum á Snæfjöllum, spillti búsgögnum og dræpi fénað föður síns, en fólk ekki.

Einu sinni hefði líka vinnumaður prests hitt hann sitjandi á hárri þúfu fyrir austan túngarðinn á Snæfjöllum; hefði hann þá haldið á harðri löngu úr fiskahjalli föður síns og verið að rífa hana úr roðinu. Maðurinn hefði þá átt að spyrja hvert hann vildi ekki kníf, og hefði hann þá svarað: „Dauður maður þarf ekki kníf, heldur stendur hann á og rífur.“