Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Steintök í Dritvík og Draugahellir (undir Jökli)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Steintök í Dritvík og Draugahellir (undir Jökli)

Það er í sögnum að skipverjar einir réri á Djúpalónssandi er svo voru sægarpar miklir að ekkert þótti sér ófært. Sýsluðu þeir um steintök að reyna með afl sitt. Liggja þeir enn á Djúpalónssandi, á leið suður til Einarslóns, lítið ofar en vegurinn. Heita þeir Fullsterkur, Hálfsterkur og Hálfdrættingur, og mátti sá enginn róa á Djúpalónssandi skipi þessu er óstyrkvari væri en það að hann léti Fullsterk á stall; er stallur sá klettabelti mittishátt í stallinn. Enn nú eru þeir einstakir menn til er róa í Dritvík er koma Fullsterk á stall, en ei allfáir Hálfsterk, en nálega allir Hálfdrættingi.

En það er sagt frá skipverjum hinum miklu á Djúpalónssandi að þeir gripu kerlingu eina og drápu (aðrir segja þeir tæki lík hennar af börunum og nokkrir að þeir græfi hana upp nýjarðaða) og höfðu að beitu eitt vor og fiskuðu þá svo mjög að þeir hlóðu hvern dag þó nálega yrðu ei aðrir varir. Beittu þeir allir kerlingarketinu nema hálfdrættingur er með þeim réri og sagt er héti Sigurður. Var það þá nótt eina að hann dreymdi það að kerling kom að honum og kvað þetta:

Verður á morgun skip skarða,
skeður furðu tilburður;
farðu' ei á morgun forvarða,
furða ber til, Sigurður.

Aðrir segja svo frá eða bæta því við: „Ei skaltu í dag róa; nú ætla ég rugla undir beinum mínum.“ – Lézt Sigurður þá krankur um morguninn, en hinir réru, og drukknuðu þeir allir um daginn, en ei getið með hverjum hætti það varð.

Hellir einn er vestan Dritvíkur þar Suðurbarði og Vesturbarði heita. Er það sagt að litlu síðar væri menn á ferð allskammt frá hellinum og heyrðu þeir að nokkuð lét í honum og var að heyra sem mælgi nokkra, en sagt er að einn eða tveir menn væri frá Helgafelli á skipi þessu; einn væri og sá er vingott ætti við dóttur bónda í Hólahólum er Narfi hét (aðrir nefna Jón). Þeir námunda hellinum fóru heyrðu nú kveðið í honum með alldimmri röddu vísu þessa:

Leiðist mér að liggja hér í ljótum helli;
betra er heima á Helgafelli
að hafa þar dans og glímuskelli.

Þá kvað og annar svo þeir heyrðu glöggt og námu þegar:

Fer ég djúpt í fiskageim[1]
fjarri hringasólum;
þó ég sé dofinn dreg ég mig heim
til dóttur Narfa í Hólum.

Hellismunninn liggur ofan á við. Var það þá sagt að sum líkin ræki í hann í brimi miklu og sagt hann héti síðan Draugahellir.

Sumir segja að þeir væri allir frá Helgafelli, ættu að sækja hey og drukknuðu á Kerlingarboða í hvítalogni. Var þeirra þá leitað. Áttu þá leitarmenn að heyra fyrri vísuna: „Leiðist mér“ o. s. frv. kveðna með dimmri röddu í hellinum á Hellisey og öll líkin ræki með stórflæði upp í hellirinn.

  1. Síðari vísuna hafa sumir þannig fyrsta vísuorðið: Fjaðra rofinn fer ég um geim.