Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Svartidauði

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Svartidauði

Þegar svartidauði geisaði á Íslandi komst hann aldrei á Vestfjörðu því tólf galdramenn vestra tóku sig saman og mögnuðu allir sendingu á móti honum. En svartidauði lagði yfir landið eins og gufa sem náði upp í miðjar hlíðar og út á mið fiskimið; réðu fyrir gufunni karl er fór með hlíðum og kerling er fór með löndum fram. Gistu hjón þessi hjá kotbónda nokkrum á Svalbarðsströnd; þótti bónda þau heldur ískyggileg og vakti um nóttina þó hann létist sofa; heyrði hann þá hvernig þau ráðgjörðu að haga ferðum sínum um daginn til þess að eyða byggðina og um morguninn voru þau horfin. Bóndi brá þá við og fann Grundar-Helgu er var landsdrottinn hans og sagði henni hvers hann hefði orðið var. Tók hún þá ráð það að flytja sig og fólk sitt á fjöll upp og dugði það sem kunnugt er orðið. Þegar gufan og manndauðinn tók að færast vestur eftir höfðu galdramennirnir sendinguna tilbúna; var hún graðungur mikill fleginn ofan að knjám og dró hann húðina eftir sér; hitti hann karl og kerlingu undir klettum í fjöru við Gilsfjörð þar sem leiðir þeirra urðu að liggja saman; sáu skyggnir menn aðgang þeirra og lauk svo að uxinn kom þeim inn undir húðina, lagði þau undir og kramdi þau sundur. Til minningar um morðvarga þessa var þetta ort:

„Tak upp þrítenntan tannforkinn,
ét mörbjúgun þrjú hér og þar,
og með lensu uppgötva[1]
ár þá svartidauði var.”[2]

Þrítennti forkurinn er M, mörbjúga C, lensa L.


  1. Uppteikna, aðrir.
  2. [Tvö fyrstu vísuorðin eru svo í Þjs.: Þrífðu forkinn þrítennta, þrjú mörbjúgun einnig þar.] – Eftir þessu ártali er svartidauði talinn 1350 eins og hann gekk um Norðurálfuna, en hann kom ekki fyrr en 1402 út hingað eins og Árb. Esp. sýna, I, 122. bls.