Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Svipur Eldjárns Hallsteinssonar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Svipur Eldjárns Hallsteinssonar

Eldjárn hét maður Hallsteinsson, Jónssonar, Hallsteinssonar; hann bjó í Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit og átti Hólmfríði Þorláksdóttur frá Stóruökrum í Blönduhlíð, Símonarsonar. Eldjárn var mikilmenni, en nokkuð hneigður til drykkju og stórfelldur, helzt við öl. Hann var hniginn á efra aldur er hér var komið. Það var skömmu eftir nýár 1849 að hann reið út í Hofsós erinda sinna; hann reið ljósum hesti er hann átti, og ætlaði heim aftur um kvöldið. Veður var kalt og frostmikið, og á rennidrif nokkurt, en birti þegar á leið nóttina. Eldjárn kom að Marbæli í Óslandshlíð á heimleiðinni um kvöldið og var þá lítið drukkinn; það er skammt eitt fyrir utan Kolbeinsdalsá. Þar bjó sá bóndi er Jón hét Sigurðarson, greindur maður og réttorður og kunningi Eldjárns; ætlaði Eldjárn að biðja hann að fylgja sér inn yfir ána á svonefndu Teigsvaði, en Jón var þá riðinn heiman fyrir stundu að fylgja öðrum manni yfir ána, Ara stúdent Arasyni á Flugumýri. Kona Jóns bónda bauð þá Eldjárni gisting, en hann vildi það ei og lézt mundu halda leiðar sinnar. Hún bað hann fara varlega; hann hét því, en sagðist mundu eiga skammt eftir ólifað. Síðan reið hann að Teigi; það er litlu sunnar og neðar við ána. Þar hitti hann bónda, Guðmund að nafni, og bað hann fylgja sér ofan að vaðinu (Teigsvaði). Guðmundur gerði svo; þar skildu þeir og hélt Eldjárn leiðar sinnar yfir ána, og sýndist Guðmundi hann halda rétta stefnu meðan hann sá til. Þegar Guðmundur var kominn heim aftur fyrir stundu þá kemur Jón bóndi á Marbæli aftur að innan; hann kemur við í Teigi því að það var í leið hans, og takast þeir Guðmundur tali við. Jón segir honum þá að þegar hann hafi komið að ánni þá hafi hann séð mann koma utan yfir ána á móti sér á ljósum hesti, og hafi hann fleygzt fram hjá sér með slíkri flugaferð að sig hafi undrað, en hvorki hafi hann þekkt hann né getað haft tal af honum. Guðmundur getur þá um ferð Eldjárns, en segir jafnframt að þetta hafi ei getað verið hann því að hann hafi þá verið um riðinn fyrir góðri stundu, en þó kveðst hann engan hafa séð fara inn yfir ána síðan. Jón varð fár við þetta og skildu þeir talið. Og það varð seinna víst að það kvöld hafði enginn maður riðið inn yfir Kolbeinsdalsá á Teigsvaði á eftir Eldjárni.[1]

En það er frá Eldjárni að segja að hann varð úti um nóttina og fannst eigi fyr en á þriðja degi eftir, skammt fyrir utan og neðan bæinn að Efraási í Hjaltadal, en hestur hans lá dauður í árvök þar nálægt. Hafði Eldjárn villzt þvers af réttri leið. Sögðu sumir menn að hann hefði eigi verið alveg kaldur undir höndum þegar hann fannst, en þó var engin tilraun gjör til að lífga hann; má og vera að það hefði til einskis komið.

Þá bjó að Kílholti í Viðvíkursveit sá bóndi er Jón hét og var Þorleifsson; hann var ráðsettur maður og vel greindur og manna frásneiddastur myrkfælni og allri hjátrú. Hann fór að láta inn fé sitt og gefa því um kvöldið eftir að Eldjárn varð úti, og vissi þá enginn um afdrif Eldjárns. Með Jóni bónda var stjúpsonur hans, unglingspiltur er og hét Jón. Þegar þeir nafnar fóru að láta inn féð vöntuðu nokkrar ær og bað Jón Þorleifsson nafna sinn að sækja þær þar út á mýrarnar milli Kílholts og Brimness og láta þær síðan inn í eitt húsið, – húsin voru þrjú saman, – en hann kvaðst ætla að gefa í hinum húsunum á meðan. Drengurinn fer og sækir ærnar og lætur þær síðan inn; sér hann þá að ekki er farið að gefa í neinu húsinu. Hlaða var að baki öllum húsunum og dyr í hana úr hverju húsi. Drengurinn fer þá upp í hlöðuna og kallar á stjúpa sinn. Jón Þorleifsson gegnir þá einhverstaðar í hlöðunni og biður nafna sinn koma til sín og bera fyrir sig heyið fram á garðana, en það var hann alténd vanur að gera sjálfur. Jón yngri gerir þetta og fara þeir nafnar heim eftir það. Segir þá Jón Þorleifsson konu sinni að það hafi komið nokkuð skrýtið fyrir sig í húsunum í kvöld. Hún spyr hvað það hafi verið. Hann segir: „Þegar Jón litli var farinn á stað eftir ánum sem vöntuðu þá fór ég upp í hlöðuna og ætlaði að fara að gefa; fór ég að hrista heyið, en þá var því jafnótt þyrlað út úr höndunum á mér svo gusurnar gengu upp yfir höfuðið á mér og allt í kringum mig; gekk þetta nokkrum sinnum; ég ætlaði þá að fara ofan úr hlöðunni og út, en þá fann ég engar dyrnar hvernig sem ég reyndi til að leita. Og þarna sat ég ráðalaus og aðgerðalaus þangað til Jón litli kom aftur. En engan fann ég og ekkert heyrði ég eða sá og ekki varð ég heldur neitt hræddur.“

Morguninn eftir, um fótaferðartíma, komu tveir menn frá Ásgeirsbrekku út að Kílholti til að spyrja eftir Eldjárni. Var þá safnað saman mönnum, og leituðu þeir hans þann dag allan og fundu ekki. Um kvöldið þá er þeir sneru frá leitinni gengu þeir inn mela þá er liggja fyrir neðan bæinn í Brimnesi. Pálmi hét sá maður er þar bjó þá; hann var Gunnlaugsson og stjúpson Björns hins ríka Illugasonar. Pálmi var aðgætinn maður. Hann kom úr fjóshlöðu sinni um kvöldið er leitarmenn fóru suður melana fyrir neðan garðinn og átti örskammt til þeirra að sjá; var sonur hans einn í leitinni, Símon að nafni. Pálmi gengur inn í baðstofu og segir við fólkið: „Það var ekki ónýtt að vera að safna saman múg og margmenni til að leita dauðaleit að honum Eldjárni, því að nú ríður hann Lýsing sínum hérna suður melana með leitarmönnum.“ En í þessum svifum kemur Símon sonur hans heim úr leitinni og segir þau tíðindi að þeir hafi hvorki getað fundið Eldjárn lífs né dauðan. Vildi Pálmi varla trúa sögu hans lengi vel því að hann kvaðst hafa horft á Eldjárn ríða rétt á eftir þeim suður alla melana og þótzt þekkja bæði hann og hestinn. En þetta var raunar tóm missýning og enginn maður ríðandi var í för þeirra. Datt þá heldur ofan yfir Pálma og sagði að Eldjárn mundi víst vera dauður.

Maður hét Einar og var Andrésson, Skúlasonar. Hann var gáfumaður og skáld og vel að sér um margt. Hann var ódeigur og kölluðu sumir hann skyggnan. Milli þeirra Eldjárns og Einars hafði fremur verið kalt um tíma. Einar var þennan vetur í Djúpadal í Blönduhlíð hjá Eiríki hreppstjóra Eiríkssyni prests að Staðarbakka, Bjarnasonar bónda í Djúpadal. Einar svaf fram í stofu og unglingspiltur til fóta hans, Jón að nafni, son Eiríks hreppstjóra. Í Djúpadal var bæjarbragur meðallagi góður og oft talað óþvegið. Eitt kvöld, rétt um það leyti sem Eldjárn fannst dauður út í Hjaltadalnum, voru þeir Einar og Jón háttaðir fram í stofu eins og vant var, og var þá enn eigi frétt lát Eldjárns þar fram í sveitina, enda er þar æðilangt í milli. Tjald var fyrir rúmi þeirra Einars til skjóls, og hátt nokkuð upp í rúmið. Þegar þeir eru nýlagztir út af og Einar ei sofnaður þá heyrir hann eitthvert más, svipað því er sofandi mann óttar. Tunglskin var í stofunni. Hann heldur fyrst að þetta más sé í Jóni og rekur því í hann högg og segir: „Fallega hefirðu gegnt mér núna að lesa eitthvað gott áður en þú fórst að sofa.“ „Láttu' ekki svona maður,“ segir Jón, „ég er glaðvakandi og er ekki einu sinni farinn að sofna; ég var að hlusta því mér heyrðist eitthvert uml svo ámátlegt.“ Einar lyftir þá tjaldinu frá rúminu og sýnist honum þá Eldjárn standa rétt fyrir framan rúmið. Einar lætur sér hvergi bilt við verða og stekkur þegar ofan, en hinn undan, og eltir Einar hann út fyrir tún með ófögrum yfirlestri, og þar skilur með þeim, en Einar snýr heim aftur og leggst niður í rúm sitt og svaf eftir það í næði.

  1. Hér kemur fram sú alkunna trú að svipir bráðfeigra manna eigi stundum að sjást fylgja þeim í lifanda lífi. P. J.