Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Torfalækjar-Jón

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Torfalækjar-Jón

Guðmundur hét bóndi; hann bjó á Torfalæk; bær sá er á Ásum í Þingeyrasókn. Kona hans hét Guðrún, en Elín dóttir. Guðmundur bóndi tók sótt og andaðist; minnkaði þá Guðrún við sig og byggði þeim manni hálfa jörðina móti sér er Jón hét. Margrét hét kona hans. Þegar saga þessi gjörðist var Bjarni sýslumaður á Þingeyrum, en Stefán prestur að Höskuldarstöðum. Guðmundur hét kaupamaður sunnlenzkur; hann réðist til Guðrúnar ekkju. Hann var dimmleitur maður og íbúðarmikill; ekki bar samt á skapbresti hans.

Einn teigur var sá í engjunum á Torfalæk er eigi var skipt og skyldi sitt hafa hvort sumar, Jón og Guðrún. Nú átti Jón að hafa teiginn. Einn morgun kemur Jón snemma út; sér hann þá að sleginn er teigurinn. Hann lét sem hann sæi það eigi. Nú var heyið á teiginum þurrkað og sætt. En er Guðmundur vildi heim reiða heyið þá var það horfið. Hafði Jón bundið það um nóttina og hirt. Guðmundur talaði þá fast eftir heyinu við Jón, en Jón kvað það sína eign verið hafa og kvað hann aldrei skyldu af hafa. Guðmundur varð stórreiður og heitaðist við Jón og sagði að svo skyldi hann til ætla að er þeir fyndust einhvern tíma mundi hann nokkur gjöld fá fyrir tiltækið um heytökuna. Leið nú svo fram sumarið. En er á leið sumarið fór Jón út í kaupstað. Guðmundur fór eftir honum um kvöldið. En er hann kom heim aftur um morguninn þá var Jón eigi heim kominn. Var hann þá spurður eftir Jóni, en hann kvaðst hann eigi fundið hafa og ekkert um hann vita. Litlu síðar fréttist lát Jóns. Fannst hann dauður fyrir innan Hafstaðaá við sjó fram undir klöpp einni. Sást það að hann mundi af mannavöldum dáið hafa. Margir dróttuðu þessu að Guðmundi, en eigi varð hann uppvís að því og lagðist málið niður.

Guðmundur hafði átt Elíni dóttur Guðrúnar og flytur hann nú bú sitt að Köldukinn. Hann átti fimm börn. Synir hans voru: Ísleifur, Magnús og Jón, en dætur Guðrún og Gróa. Einn dag sat Jón yfir lömbum í hólum þeim er eru fyrir sunnan bæ í Köldukinn. Hann kom eigi heim þá er hans þótti von. Fór þá faðir hans um kvöldið af stað að leita hans og fann hann, þar sem hann lá og spyrndi frá sér höndum og fótum, barðist um og féll froða og blóð af vitum hans. Guðmundur bar hann heim og bráði þá af honum. Um sumarið fór hann út í kaupstað. En þegar hann kom að Hafstaðaá stöðvaði hann hestinn við ána og vildi eigi út í, en hesturinn vildi áfram og gekk fram í ána. Jón rak þá upp hljóð undarlegt; litu þá samferðamenn hans aftur því hann reið þeirra síðastur. Sáu þeir þá að Jón féll niður af hestinum í ána og er þeir komu að var hann dauður.

Guðmundur flutti sig enn búferlum og að Syðrahóli. Þar bjó hann fimmtán ár. Magnús sonur hans var þar hjá honum. Hann réri um sumarið við og við og gekk heiman að á morgnana, en heim á kvöldin; það er og eigi alllangur vegur. Eitt kvöld kom hann eigi heim sem hann var vanur. Faðir hans fór þá af stað og leitaði hans og fann hann á melunum við Laxá. Lá hann þar og var dauður og blár sem hel.

Ísleifur sonur Guðmundar átti Guðrúnu er seinna átti Jóhannes bóndi á Breiðavaði. Hans synir voru Ísleifur og Jónas er nú býr á Breiðavaði (1847). Ísleifur bjó á Hóli. Hann fannst einn sunnudagsmorgun undir brekku þeirri er Langabrekka heitir og er fyrir innan Höskuldarstaði og liggur hjá alfaravegi. Ísleifur var þar dauður og héldu menn að hann hefði dáið úr flogi.

Gróa dóttir Guðmundar dó voveiflega á Beinakeldu, en Guðrún varð vitlaus við Höskuldsstaðakirkju.

Er það trú manna að Jón hafi aftur gengið og ollað þessum óförum er börn Guðmundar urðu fyrir. Það segja menn og að einhverju sinni hafi konu Jóns Margréti dreymt það að Jón kom til hennar og sagði: „Guðmundur fær gjöld í öðrum heimi, en börn hans í þessum.“