Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Tvær sagnir um fylgjur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Tvær sagnir um fylgjur

Það er sagt að maður einn væri í Mýrasýslu sem móðir hans fylgdi, en af því svo margt illt þótti af henni standa þar sem hann kom gátu héraðsmenn að lokunum ekki hýst hann.

Önnur sögn er það og úr sama héraði að þar var maður sem Magnús hét. Hann var bæði holdsveikur (limafallssjúkur) mjög og þar til illhryssingur. Einu sinni var hann fluttur til læknis og var komið með hann að Borg á Mýrum og lofað að vera nætursakir. Þaðan var farið með hann að Ánabrekku og féll þá af honum annar fóturinn og dó hann þá skömmu síðar. Prófastskonuna sem þá var á Borg og hefur sagt frá þessari sögu hryllti við honum. Næstu nótt dreymdi hana að hann kæmi þangað aftur enda var komið með fótinn af honum til kirkjunnar daginn eftir, en það átti að vera fylgja Magnúsar sem bar fyrir hana í draumi.