Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Upp koma svik um síðir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
„Upp koma svik um síðir“

Einu sinni var tekin gröf í kirkjugarði á prestsetri nokkru, kom þar upp með öðrum greftri hauskúpa ein og stóð bandprjónn gegnum hana. Prestur geymdi hauskúpuna þangað til messað var næsta helgan dag á eftir. Beið hann þess að allt fólk var komið í kirkju og festi hann þá kúpuna yfir kirkjudyrum. Eftir embætti gekk prestur fyrstur út með meðhjálpurunum og hugði að þeim sem út gengu. Urðu þeir einkis varir. Gættu þeir þá að hvort nokkur væri eftir inni og sáu þeir þá að kerling ein, gömul mjög, bograði að hurðarbaki og varð að neyða hana til útgöngu. Drupu þá þrír blóðdropar af kúpunni niður á faldtraf kerlingar. Hún mælti þá: „Upp koma svik um síðir.“ Gekkst hún þá við því að hún hefði ráðið fyrri manni sínum bana með því að reka prjón gegnum höfuð hans. Var hún þá ung og hafði átt hann nauðug og samfarir þeirra verið skammar. Konan bjó sjálf um líkið og höfðu ekki aðrir hugað að því. Síðan hafði hún gengið að eiga annan mann, en hann var þá líka dauður. Það er mælt að kerlingu þessari væri drekkt eins og gjört var mæðrum er fyrirfóru börnum sínum.