Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Uppvakningurinn á Miklagarði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Uppvakningurinn á Miklagarði

Eitt sinn var vinnumaður á Miklagarði í Eyjafirði. Hann vakti upp draug og ætlaði að senda hann óvini sínum. Þegar að því kom að hann skyldi kara drauginn heyktist hann og vildi ekki kara; þótti honum það óþokkalegt, en það urðu þeir sem upp vöktu drauga að gjöra til þess að fá vald yfir þeim og fullkomna auðsveipni og þjónustu þeirra. Sagði hann því draugnum að fara aftur ofan í gröfina og leggjast til hvíldar; en draugurinn er ekki á því fyrst svona langt sé komið og ætlar þegar að ráða á hann. En vinnumaður flýr inn til prestsins húsbónda síns og biður hann ásjár. Prestur lætur hann vera hjá sér inni í baðstofuhúsi og snýr draugurinn aftur þegar hann sér prest. Síðan lætur prestur vinnumanninn fara út í kirkju um kveldið og skyldi hann standa fyrir altarinu alla nóttina með handbókina í hendinni og ekkert orð mæla hvað sem hann heyrði eða sæi fyrri en hann (presturinn) kæmi og rétti að honum höndina og byði honum góðan dag. Vinnumaðurinn gjörði sem prestur bauð. En ekki hafði hann lengi staðið fyrir altarinu fyrri en hann sá og heyrði ýmsar býsnir. Hans var á allar lundir freistað til að mæla og sýndist honum prestur kominn í kirkjuna og talaði við sig og kvað nú dag kominn og mundi honum því óhætt að mæla. En aldrei var tekið í hönd honum sem var það merki sem prestur hafði gefið honum; og stóðst hann því svo alla nóttina að hann gegndi ekki þótt hann þættist fullviss um að prestur væri að tala við sig. Prestur fór snemma á fætur og gekk til kirkju og bauð vinnumanni góðan dag með handabandi, og hafði hann heppilega staðizt raun sína, enda gjörði draugurinn ekki vart við sig framar.