Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Valdi á Hrafnfjarðarheiði

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þorvaldur er maður nefndur; hann bjó að Hrapps- eða Hrafnsfjarðareyri í Grunnavíkursveit. Konu átti hann og börn nokkur þó ei séu hér nefnd. Þorvaldur þótti undarlegur í skapi og kölluðu menn hann fjölkunnugan. Það var vani hans að fara fyrstur út á morgnana og síðastur inn á kvöldum. Bar það oft við að hann hvarf frá bæ og vissi enginn hvar hann dvaldi. En það þótti mönnum sjálfsagt í þann tíma að þá gengi hann í hóla. Ekki er þess getið að Þorvaldur glettist við saklausa, en oft misstu óvinir hans snögglega hest eða kú þegar þeir gjörðu á hluta hans og gátu ekki hefnt.

Þegar Þorvaldur var orðinn gamall tók hann sótt þunga og lá heilt sumar eða lengur. Varð konan að vaka yfir honum því ekki var annað fólk þar á bæ en konan og börnin. All[ó]skemmtilegt sagði hún að verið hefði hinar síðustu nætur sem bóndi lifði og sækti þá ýmsar kvikindamyndir að honum. En þegar hann dó komu hrafnar margir á glugg er uppi var yfir rúmi hans og létu illa. Ekki gat konan látið prest vita dauðsfallið og sat hún yfir líkinu fjóra sólarhringa, en ekki gat hún eða börnin sofið neitt þann tíma. Af hendingu kom þar bóndi er Bjarni er nefndur; hann bjó að Snoðskoti við Þaralátursfjörð. Sagði konan honum frá látinn væri Þorvaldur; þar með biður hún Bjarna vera þar um þá næstu nótt og gjörir hann so. Um kvöldið sér hann hund mórauðan skríða undir loftið og hristist það þá sem á þræði léki. So hafði gengið hvurja nótt síðan Valdi dó og hafði það að sögn konunnar valdið svefnleysi hennar og barnanna. Fer nú Bjarni undir pallinn og vísar seppa þessum út. Tekur hann þá þrjá steina úr nærbuxnavasa sínum: einn hvítan, annan rauðan og þriðja grænan; biður konuna hafa þá milli brjósta sér og muni hún geta sofið. Vakir hann þá nótt yfir Valda. Um morguninn fer hann til Staðar og lætur prestur smíða um Valda og syngur yfir. En Bjarni tekur aftur steinana og segir ekki muni konuna saka þó Þorvaldur bóndi hefði ætlað henni bana.