Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Vel gjörðir þú

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Vel gjörðir þú“

Þegar Daníel faðir Þorsteins umboðsmanns á Lóni í Eyjafirði bjó á Lóni var hjá honum gömul vinnukona er Ruth hét, systir Jóns ríka á Böggustöðum. Hún var einu sinni sem oftar að heyvinnu á Lónsey með öðrum stúlkum. Hörgá rennur þar í kringum eyna. Einn dag þraut þeim ljáin og gengu þær því sér til skemmtunar út á eyri er lá skammt frá út í ána. Ruth verður litið í kringum sig. Sér hún þá hvar liggur í flæðarmálinu skinið bein; hún tekur það upp og sér það var hauskúpa af manni. Hún tekur hana með sér í því tilliti að koma henni í Möðruvallakirkjugarð. Hún segir við stúlkurnar í gamni: „Ég atla nú að láta kúpu þessa undir höfðalag mitt í nótt og vita hvað mig dreymir.“ Hún gjörir þetta. Um morguninn þegar hún vaknaði spurðu lagskonur hennar að hvert hana hefði dreymt nokkuð. Ruth kvað já við, en kvað verr að hún hefði vaknað of fljótt. „Þegar ég var nýsofnuð sá ég hvar unglegur maður kom upp að loftskörinni gegnt mér, og renndi hann hýru auga til mín, að mér sýndist, og mæla þannig: „Vel gjörðir þú,“ en við þetta hrökk ég upp og sá ég hvar hann hvarf ofan. Hann var í vesti og ljósblárri peysu.“ Ruth kom þar næst þegar grafið var í kirkjugarðinn á Möðruvöllum, en hana dreymdi aldrei neitt framar um þetta.

Getur manna vóru það að kúpa þessi hefði verið af manni þeim er Halldór hét, unglingsmaður frá Björgum í Hörgárdal, og gamlir menn mundu eftir að drukknað hefði í Hörgá fyrir mörgum árum.